Viðskipti innlent

Dollarinn hefur fallið um 12% gagnvart krónu frá júní

Gengi Bandaríkjadollars gaf eftir í gær gagnvart öllum helstu myntum og í kjölfarið fór dollarinn niður í 115 krónur. Hefur dollarinn þá ekki verið jafn ódýr í krónum talið síðan í mars á síðasta ári. Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar hefur nú styrkst um 4% frá því í septemberbyrjun og um 12% frá júníbyrjun.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að það sem olli veikingu dollars í gær var svartsýn ræða Ben Bernanke seðlabankastjóra í kjölfar vaxtaákvörðunarfundar vestanhafs.

Stýrivöxtum var haldið óbreyttum í 0-0,25% en ræða seðlabankastjóra í kjölfar ákvörðunarinnar þótti afar svartsýn, sem varð til þess að dollarinn gaf eftir. Við lok markaða í Bandaríkjunum í gær kostaði evran 1,339 dollara og er það hæsta gildi sem evru/dollar krossinn hefur tekið síðan í apríl síðastliðnum.

Þessi hreyfing gekk þó að einhverju leyti til baka núna í morgun og stendur evru/dollar krossinn nú í 1,335. Það sem olli svartsýni Ben Bernanke eru veikar hagvaxtarhorfur í Bandaríkjunum og lélegar hagtölur, en talsvert hefur hægt á efnahagsbatanum vestan hafs sem veldur Bernanke og fleirum þungum áhyggjum. Þykir þetta auka líkurnar á því að vöxtum verði haldið lágum í Bandaríkjunum lengur en ella.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×