Viðskipti innlent

Atvinnuleysi minnkar, mældist 8,3% í maí

Skráð atvinnuleysi í maí 2010 var 8,3% en að meðaltali 13.875 manns voru atvinnulausir í maí og minnkar atvinnuleysi um 5,4% frá apríl, eða um 794 manns að meðaltali.

Þetta kemur fram á vefsíðu Vinnumálastofnunnar. Þar segir að mest fækkar körlum á atvinnuleysisskrá eða um 727 að meðaltali en konum fækkar um 67 að meðaltali. Fækkunin er hlutfallslega meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu eða um 8,5% á landsbyggðinni og um 4% á höfuðborgarsvæðinu.

Mest fækkar atvinnulausum í mannvirkjagreinum eða um 367 manns. Atvinnuleysið er 9,1% á höfuðborgarsvæðinu en 7% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum 13,5%, en minnst á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra 3,6%. Atvinnuleysið er 8,8% meðal karla og 7,7% meðal kvenna.

Alls voru 14.867 atvinnulausir í lok maí. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 12.222, af þeim voru 3.253 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í ráðgjafarviðtöl, á kynningarfundi og í vinnumiðlun.

Fækkun atvinnulausra í lok maí mánaðar frá lokum apríl nam 1.065, en 915 færri karlar voru á skrá og 150 færri konur. Á landsbyggðinni fækkar um 579 og um 486 á höfuðborgarsvæðinu.

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 8.723 og fækkar um 194 frá lokum apríl og er um 59% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok maí. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fækkar úr 4.662 í lok apríl í 4.620 í lok maí.

Alls voru 2.735 á aldrinum 16-24 ára atvinnulausir í lok maí en 3.024 í lok apríl eða um 18% allra atvinnulausra í maí og fækkar um 289 frá því í apríl. Í maí 2009 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 3.734 og hefur því fækkað um nærri 1.000 frá maí 2009.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×