Viðskipti innlent

Þrotabú Landsbankans kostar milljarð á mánuði

Heildarkostnaður við rekstur á þrotabúi Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi ársins nam tæplega 3,3 milljörðum kr. Þetta þýðir að kostnaðurinn við reksturinn, skilanefnd og slitastjórn, hefur verið rúmlega milljarður á mánuði að jafnaði.

 

Þetta kemur fram í skýrslu þrotabúsins til kröfuhafafundar Landsbankans sem haldinn var í dag. Þessi kostnaður skiptist þannig að laun og launatengd gjöld námu 941 milljón kr. á tímabilinu eða rúmlega 300 milljónum kr. á mánuði.

 

Lögfræði og annar sérfræðikostnaður á ársfjórðungnum nemur tæplega 1,6 milljarði kr. og er stærsti einstaki kostnaðarliðurinn. Töluverðu munar á innlendum og erlendum kostnaði hvað þetta varðar. Innlendi kostnaðurinn er 283 milljónir kr. en sá erlendi er 1,278 milljónir kr.

 

Af öðrum kostnaðarliðum má nefna að hollenski skiptastjórinn kostaði 122 milljónir kr. á fyrrgreindu tímabili, annar rekstrarkostnaður nemur 180 milljónum kr. og húsnæðiskostnaður nemur 62 milljónum kr.

Þá var kostnaður við þjónustusamning við NBI 262 milljónir kr. á tímabilinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×