Viðskipti innlent

Bókhaldsóreiða hjá Björgólfsfeðgum

Skiptastjóri þrotabús Samsonar hefur undanfarna unnið að því að greiða úr flækjunni í þrotabúinu en það er hans hlutverk að gæta hagsmuna kröfuhafanna, þ.e þeirra sem lánuðu Björgólfsfeðgum peninga. Þeir eru ansi margir og kröfurnar í búið nema samtals 80 milljörðum króna.

Það sem hefur torveldað störf skiptastjórans er að það vantar lánasamninga fyrir mörgum svimandi háum millifærslum. Meðal annars finnast ekki samningar vegna lána til fjögurra aflandsfélaga á Tortóla upp á 800 milljónir króna. Beðið er eftir upplýsingum frá starfsmönnum Novators, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, varðandi eignarhaldið á þessum félögum, en allt bendir til að þau hafi einnig verið í eigu feðganna.

Í bókhaldinu finnast millifærslubeiðnir þar sem er beðið um að millifæra ákveðna upphæð inn á tiltekinn reikning, síðan er sá sem skráður er skluldari lánsins er annar en sá sem fékk greiðslu vegna þess, en svo virðist sem ákveðinn hluti þeirra hafi farið í gegnum Landsbankann í Lúxemborg.

Þær skýringar sem stjórn Samsonar, sem var skipuð Björgólfi Guðmundssyni, Sigþóri Sigmarssyni og Ágústi Leóssyni, gefur er að fjármálastjóri Samsonar hafi glímt við veikindi og því hafi bókhaldið ekki verið í lagi.

Þrotabú Samsonar á einnig háa innstæðu hjá Landsbankanum í Lúxemborg, sem er í gjaldþrotameðferð. Hefur gætt nokkurs taugatitrings varðandi innstæðuna, en mörgum þykir óeðlilegt að félög sem tengjast Björgólfsfeðgum eigi að njóta forgangs, en innstæður eru forgangskröfur í þrotabú.

Nú hafa 16 erlendir bankar, þ.á.m Commerzbank, krafist afhendingar á 380 milljóna króna innstæðu Samsonar Landsbankanum á Íslandi, en þrotabúið hafnar kröfunni þar sem málsástæða fyrir henni barst fyrir lok þess tíma sem heimilt var að lýsa kröfum í þrotabúið. Heildarkröfur í þrotabú Samsonar nema rúmlega áttatíu milljörðum króna. Þýski bankinn Commerzbank og suðurafríski bankinn Standard eiga kröfur samtals upp á 52,2 milljarða króna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×