Viðskipti innlent

Krónan heldur áfram að styrkjast gagnvart evrunni

Gengi krónunnar heldur áfram að styrkjast gagnvart evru og kostar evran 157,5 krónur á innlendum millibankamarkaði þegar þetta er ritað (kl. 11:30). Um áramótin stóð evran í 179,9 krónum og hefur krónan því styrkst um 14,1% gagnvart evru frá þeim tíma.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í raun hefur krónan ekki verið jafn sterk gagnvart evru síðan í mars á síðasta ári. Krónan hefur einnig verið að sækja í sig veðrið gagnvart sterlingspundinu. Þegar þetta er ritað kostar pundið rúmar 188 krónur og hefur krónan styrkst um 7,4% gagnvart pundi frá ársbyrjun þegar pundið stóð í rúmum 202 krónum.

„Teljum við, líkt og undanfarið, líklegt að styrking krónunnar eigi rætur að rekja til aukins gjaldeyrisinnflæðis vegna afgangs af vöru- og þjónustuviðskiptum og ólíklegt að inngrip Seðlabankans skýri styrkinguna nú enda hefur bankinn haldið sig fjarri gjaldeyrismarkaði allt frá því í byrjun nóvember á síðasta ári," segir í Morgunkorninu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×