Viðskipti innlent

Heildarútlán ÍLS lækkuðu um 14% í desember

Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) tæpum 2,1 milljarði króna í desember. Þar af voru tæpir 1,5 milljarðar vegna almennra lána og rúmar 600 milljónir vegna annarra lána. Heildarútlán sjóðsins lækkuðu því um 14% frá fyrra mánuði.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu ÍLS. Þar segir að meðalútlán almennra lána voru um 8,8 milljónir króna í desember sem er lækkun um 2% frá fyrra mánuði. Heildarútlán sjóðsins námu rétt rúmum 30 milljörðum króna á árinu 2009 samanborið við rúma 64 milljarða króna á árinu 2008 en það samsvarar 48% samdrætti milli ára.

Á fjórða ársfjórðungi 2009 bárust 835 umsóknir vegna greiðsluerfileika sem eru um 27% fleiri umsóknir en á þriðja ársfjórðungi. Á árinu 2009 bárust 3.320 slíkar umsóknir, eða um 42% fleiri umsóknir en á árinu 2008. Úrræði vegna greiðsluvanda eru samningar, skuldbreyting vanskila, frestun á greiðslum, lenging lána og greiðslujöfnun. Í árslok 2009 höfðu um 41 þúsund lán verið greiðslujöfnuð sem samsvarar til um 50% af útlánasafni sjóðsins.

Heildarvelta íbúðabréfa í desember nam tæpum 65 milljörðum króna en það er um 19% meiri velta en í fyrra mánuði. Heildarvelta bréfanna nam rúmum 928 milljörðum á árinu 2009 en til samanburðar nam veltan á árinu 2008 um 2.379 milljörðum króna. . Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði frá byrjun árs til loka árs 2009 um 29 til 123 punkta eftir flokkum.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu um 9,4 milljörðum króna í desember og voru afborganir að mestum hluta vegna íbúðabréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í desember námu um 1,1 milljarði króna. Heildargreiðslur allra lána ÍLS eru því um 9,4 milljarðar kr. á árinu 2009.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×