Viðskipti innlent

Efnahagsbatanum seinkar að mati Seðlabankans

Samdráttur síðasta árs var minni en áður hafði verið reiknað með og vísbendingar eru um að einkaneysla verði sterkari út spátímann.
Samdráttur síðasta árs var minni en áður hafði verið reiknað með og vísbendingar eru um að einkaneysla verði sterkari út spátímann.
Seðlabankinn gerir ráð fyrir að efnahagsbata landsins seinki um einn ársfjórðung, til þriðja ársfjórðungs þessa árs. Samkvæmt því mun efnahagssamdrátturinn hér á landi vara í tíu ársfjórðunga eða tvö og hálft ár sem er lengra en í öðrum iðnríkjum.

Þetta kemur fram í þjóðhagsspá í  Peningamálum Seðlabankans sem birt voru í dag. Þar segir að þótt efnahagsbata seinki frá því sem spáð var í janúar, veldur kröftugri einkaneysla því að landsframleiðsla dregst minna saman á þessu ári en þá var spáð. Jafnframt eru horfur á hægum vexti á næstu tveimur árum.

Samdráttur síðasta árs var minni en áður hafði verið reiknað með og vísbendingar eru um að einkaneysla verði sterkari út spátímann. Fjárfesting verður hins vegar veikari á þessu ári vegna frekari seinkunar stóriðjufjárfestingar og meiri samdráttar annarrar atvinnuvegafjárfestingar.

Sveigjanleiki á vinnumarkaði hefur verið töluvert meiri en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þannig dróst atvinna meira saman á síðasta ári og launakostnaður jókst mun minna en reiknað var með í janúar. Sveigjanleikinn hefur líklega átt ríkan þátt í að vega á móti meiri verðbólguþrýstingi sakir gengislækkunar og komið í veg fyrir að atvinnuleysi ykist meira en raun ber vitni. Útlit er fyrir að gengi krónunnar verði heldur sterkara á spátímanum en spáð var í janúar.

Tiltölulega stöðugt gengi og vannýtt framleiðslugeta munu stuðla að áframhaldandi hjöðnun verðbólgu. Spáð er að undirliggjandi verðbólga verði í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans snemma á næsta ári en að mæld verðbólga verði í samræmi við markmiðið þegar líða tekur á næsta ár.

Sem endranær ríkir mikil óvissa um efnahagshorfur. Þó hefur dregið úr óvissu um framgang efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með samþykki annarrar endurskoðunar áætlunarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×