Innlent

Ríkisstjórnin ætlar að bíða eftir dómi vegna óvissuþátta í gengismáli

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á þingi í dag um áhrif dóms Hæstaréttar á gengistryggðum lánum að það væri mikilvægt að úr óvissunni yrði skorið fyrir dómstólum. Hún segir stjórnvöld ekki ætla að aðhafast fyrr en dómstólar hafa skorið úr um óvissuþætti eins og hvaða vexti lánin eigi að bera.

Þá sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra að fjármálakerfið tæki á sig mjög þungt högg ef vextirnir myndu haldast jafn lágir og þeir eru nú. Hann sagði vandamálið alvarlegt og það væri ekki hægt aðstinga höfðinu í sandinn vegna málsins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir skilaboð stjórnvalda afar misvísandi. Hann benti á að viðskiptabankarnir hefðu sent frá sér yfirlýsingar undanfarið þar sem þeir lýsa því yfir að þeir munu geta tekið þeim áföllum sem er óhjákvæmileg afleiðing dóms Hæstaréttar.

Hann sagði ennfremur að ábyrgð fjármálakerfisins og eftirlitsstofnanna væri afar mikil í þessu máli. Bjarni áréttaði svo að það væri ekki stjórnvalda að hlutast til í dómum Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×