Erlent

Umhverfissinnar kúvenda í kjarnorku og erfðabreytingum

Óli Tynes skrifar
Hvað hef ég gert?
Hvað hef ég gert?

Leiðandi umhverfissinnar hafa sumir kúvent í afstöðu sinni til málaflokka eins og kjarnorku og erfðabreyttra matvæla. Þeir segja nú að þeir hafi rangt fyrir sér í baráttu sinni gegn þeim. Baráttan gegn kjarnorku hafi leitt til fleiri kolakyntra orkuvera sem mengi rosalega. Með því að berjast gegn erfðabreyttum matvælum hafi þeir hindrað að þróunarlönd gætu fætt hungraða þegna sína.

Í þætti um umhverfismál á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4 er meðal annars talað við Mark Lynas sem hefur verið í baráttuhópum gegn erfðabreyttum matvælum og loftslagsbreytingum. Hann segir að umhverfissamtök séu að tapa orrustunni um almenningsálitið. Þau hafi gefið út of margar dómsdagsspár og uppblásnar fullyrðingar.

Milljarða tonna meiri útblástur

Patrick Moore sem var einn af stofnendum Greenpeace er sama sinnis. Um kjarnorkuverin segir hann að þeir hafi haft rétt fyrir sér um að þar hefðu verið ýmis vandamál. Það hefði þó ekki átt að leiða til þess að þeir væru algerlega á móti kjarnorku. Með því hefðu ríkisstjórnir neyðst til að reisa fleiri orkuver sem brenndu kol. Það hafi aukið útblástur gróðurhúsalofttegunda um milljarða tonna.

Engir Frankensteinar

Mark Lynas var einn þeirra sem rifu upp erfðabreytt korn á níunda áratugnum. Hann segist hafa skipt um skoðun vegna þess að milljónir manna í Bandaríkjunum hafi nú borðað erfðabreytt matvæli í meira en tíu ár án þess að verða meint af.

Þessir umbreyttu umhverfisverndarsinnar segja að síðan þeir viðruðu hugarfarsbreytingar sínar hafi hin hefðbundnu umhverfisverndarsamtök byrjað að rægja þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×