Viðskipti innlent

Skapa nærri 900 störf fyrir námsmenn og atvinnulausa

Rúmlega 350 milljónum króna verður varið til að skapa nærri 900 störf í sumar fyrir námsmenn og atvinnulausa. Félagsmálaráðherra kynnti þessar aðgerðir í dag en opnað verður fyrir umsóknir í næstu viku. Um er að ræða samstarfsverkefni ríkisstjórnarinnar, fyrirtækja og sveitarfélaga.

856 störf verða í boði fyrir námsmenn og atvinnulausa - flest tímabundin í allt að sex mánuði en opnað verður fyrir umsóknir á miðvikudag í næstu viku. Viðhald á veðurstöðvum, útvarpsþáttagerð og rannsókn á áhrifum eldfjallaösku á flugvélahreyfla eru meðal þeirra starfa sem verða í boði.

Atvinnuleysistryggingasjóður styrkir verkefnið um 250 milljónir króna og ríkisstjórnin leggur til rúmlega 100 milljónir til að tyggja að laun verði í samræmi við kjarasamninga.

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra. Mynd/GVA
„Með þessu erum við að vonast til þess að mæta að öllu leyti þörfum námsmanna fyrir sumarstörf og líka gera þeim sem eru að glíma við atvinnuleysi tækifæri á tímabundnu starfi jafnvel þó að við getum ekki veitt langtímastörf," segir Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra.

En útvegar þetta öllum þeim vinnu sem þurfa? „Það er auðvitað spurning. Við verðum að sjá hvernig það fer en þetta er auðvitað þúsund störf sem eru ekki endilega eyrnamerkt stúdentum Háskóla Íslands en á vonandi eftir að nýtast þeim mjög vel og það er vonandi að þetta bjargi mörgum fyrir horn," segir Jens Fjalar Skaptason, formaður Stúdentaráðs HÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×