Viðskipti innlent

Millifærslur Björgólfsfeðga til Tortóla í rannsókn

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Þrotabú Samsonar, félags Björgólfsfeðga, rannsakar nú hvort feðgarnir hafi lánað sjálfum sér tæpan milljarð króna úr Samson og inn í eignarhaldsfélög á Tortóla-eyju. Engir lánasamningar virðast hafa verið gerðir.

 

 

Sem kunnugt er höfðaði Þrotabú Samsonar, eignarhaldsfélags Björgólfsfeðga, fimm riftunarmál síðastliðið sumar gegn Björgólfi Guðmundssyni sjálfum og tengdum félögum vegna viðskipta sem áttu sér stað áður en Samson fór í greiðslustöðvun.

 

Um var að ræða riftunarmál vegna lána og millifærslna upp á samtals 19 milljarða króna frá Samson til eigin félags í Lúxemborg, styrks til Knattspyrnufélags Reykjavíkur rétt eftir bankahrun og greiðslu á skuld Björgólfs Guðmundssonar við minningarsjóð dóttur hans.

 

Jafnframt vildi þrotabúið rifta kaupum Samsonar á hlutabréfum í MGM eignarhaldsfélagi, en eina eign þess félags var hlutabréf í Árvakri, en þrotabúið vill meina að Samson hafi greitt óskiljanlegt verð fyrir hlutinn. Beðið er eftir greinargerðum frá þeim aðilum sem í hluta eiga vegna þessara málshöfðana.

 

DV greinir síðan frá því í dag að Helgi Birgisson, skiptastjóri þrotabús Samsonar, sé að rannsaka afdrif lána Samsonar til fjögurra félaga á Tortóla-eyju, sem er ein af bresku Jómfrúreyjunum. Um er að ræða lán upp á samtals 800 milljónir króna, en svo virðist sem bókhaldi vegna umræddra lánveitinga hafi verið mjög ábótavant og engir lánasamningar verið gerðir.

 

A.m.k eitt þessara félaga, Amber International, var stofnað af Björgólfi Thor Björgólfssyni. Helgi Birgisson sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ekki hefði verið tekin ákvörðun um málshöfðanir vegna þessara lána. Hann sagði að unnið væri að því að komast að því hverjir ættu umrædd félög, en allt bendir til þess að þau séu einnig í eigu feðganna eða tengdra aðila.

 

Eitt þeirra Opal Global Investments, rann inn í Samson Global Holdings í Lúxemborg, sem var í eigu feðganna.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×