Viðskipti innlent

Neytendastofa bannar skilmála Avant á bílalánum

Avant lýsir sig reiðubúið að setja ofangreinda skýringu í vaxtaskrá félagsins sem sé aðgengileg viðskiptavinum þess á heimasíðu Avant.
Avant lýsir sig reiðubúið að setja ofangreinda skýringu í vaxtaskrá félagsins sem sé aðgengileg viðskiptavinum þess á heimasíðu Avant.
Neytendastofa hefur úrskurðað í máli gegn Avant hf. þar sem fyrirtækinu er bannað að nota skilmála sína um ársvexti í bílasamningum sínum við neytendur.

Í niðurstöðu Neytendastofu segir: „Avant hf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík, hefur brotið gegn ákvæðum laga, um neytendalán, með því að tilgreina ekki í skilmálum bílasamnings í íslenskum krónum með hvaða hætti vextir séu breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytist.

Með heimild í lögum um neytendalán bannar Neytendastofa Avant hf. í bílasamningum við neytendur í íslenskum krónum að notast við skilmála um að ársvexti skuli greiða samkvæmt gildandi vaxtaskrá Avant hf. á hverjum tíma.

Bannið tekur gildi við birtingu ákvörðunarinnar"

Neytendastofu barst kvörtun vegna skilmála á bílasamningi við Avant hf. í apríl í fyrra. Í erindinu kemur fram að kvartandi hafi þann 20. júní 2007 keypt bifreið og fjármagnað kaupin með bílaláni frá Avant. Skuldabréfið sé í íslenskum krónum, tryggt með vísitölu neysluverðs og með breytilegum vöxtum. Um vextina segir í 2. gr. samningsins: „skuldari skuldbindur sig til að greiða tilgreinda ársvexti, sem skulu vera vextir samkv. gildandi vaxtaskrá AVANT hf., um bílalán, eins og hún er á hverjum tíma fyrir verðtryggð skuldabréf ..."

Við eftirgrennslan greindi Avant frá því að breytilegir vextir fylgdu breytingum á stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands þó svo að í samningi væri ekki beint vísað til þess.

Á skuldabréfinu séu upphafsvextir tilgreindir 7,25% en á þeim tíma voru stýrivextir Seðlabanka Íslands 13,3% og vaxtamunur því 6,05%.

Þegar leið á árið 2008 hafi komið í ljós að ekki var samhljómur á milli breytinga á stýrivöxtum Seðlabanka og Avant. Þegar athygli starfsmanna Avant hafi verið vakin á því að breytingar á vöxtum samræmdust ekki breytingum á stýrivöxtum Seðlabanka hafi kvartanda verið bent á að hafa samband við lánasérfræðing sem gerði grein fyrir því að markaðsdeild væri með vitneskju um þetta og að haft yrði samband við kvartanda. Í byrjun september 2008 hafi kvartandi náð sambandi við markaðsstjóra sem lofaði að senda skýringar á vaxtabreytingunum. Enn hafi ekkert svar borist við því.

Í bréfi Avant til Neytendastofu segir að breytilegir vextir skv. vaxtaskrá Avant stjórnist annars vegar af markaðsaðstæðum á fjármálamörkuðum, sem ráðist annars vegar af millibankavöxtum og hins vegar af þeim vaxtakjörum sem Avant njóti hjá fjármögnunaraðilum sínum og kalla megi grunnvexti, og hins vegar af samkeppnisumhverfi félagsins á bílalánamarkaði hérlendis, sem stýri því hvert álag Avant ofan á grunnvexti sé hverju sinni.

Þar sem framangreind atriði séu í eðli sínu afar breytileg telji Avant sig ekki geta gefið nákvæmari lýsingu á vaxtabreytingaaðstæðum breytilegra vaxta en félagið lýsi sig reiðubúið að setja ofangreinda skýringu í vaxtaskrá félagsins sem sé aðgengileg viðskiptavinum þess á heimasíðu Avant.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×