Innlent

Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur

Jón Gnarr, nýkjörinn borgarstjóri.
Jón Gnarr, nýkjörinn borgarstjóri.

Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, hefur verið kosinn borgarstjóri Reykjavíkur á fundi Borgarstjórnar Reykjavíkur sem hófst klukkan tvö í dag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var kosin forseti borgarstjórnar og Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, var kosin fyrsti varaforseti borgarstjórnar.

Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, var kosin annar varaforseti borgarstjórnar.

Í kjölfarið var eftirfarandi bókun samþykkt einróma af fulltrúum allra flokka:

„Besti flokkurinn og Samfylkingin hafa gert með sér málefnasamning og þar með myndað meirihluta í borgarstjórn. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og VG eiga enga aðild að þeim meirihluta eða málefnasamningi. Vilji er hins vegar fyrir því hjá nýkjörinni borgarstjórn að auka samvinnu milli flokka og nýta krafta allra borgarfulltrúa í samræmi við vinnubrögð fráfarandi borgarstjórnar.

Í staðinn fyrir hefðbundna kosningu á milli lista meirihluta og lista minnihluta í ráð og nefndir hafa borgarfulltrúar náð samkomulagi um að bera fram eina tillögu að nefndarskipan til að ná fram auknu jafnvægi milli flokka í nefndum og ráðum borgarinnar. Fulltrúar meirihlutans munu fara með formennsku í fagráðum en formennska í hverfisráðum og starfshópum mun skiptast milli flokka.

Aðgerðarhópur borgarstjórnar í efnahags- og atvinnumálum, sem skipaður var á síðasta kjörtímabili, mun halda áfram sínum störfum og munu oddvitar allra framboða taka þátt í því starfi. Að auki mun forysta ákveðinna verkefna og embætta vera óháð því hverjir eiga aðild að meirihlutanum. Þannig munu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og VG taka að sér embætti forseta og fyrsta varaforseta borgarstjórnar og leiða ákveðna starfshópa um ýmis mikilvæg hagsmunamál sem borgarstjórn telur brýnt að unnið verði að í samstarfi allra flokka eins og atvinnumálahóp, sem starfaði á síðasta kjörtímabili. Þetta fyrirkomulag er ákveðið til eins árs í senn.

Það er von allrar borgarstjórnar að þau skref sem hér eru stigin til áframhaldandi samvinnu allra borgarfulltrúa á vettvangi borgarstjórnar verði til heilla fyrir borgina og borgarbúa."






Tengdar fréttir

Hanna Birna kosin forseti borgarstjórnar

Hanna Birna Kristjánsdóttir var kosin forseti borgarstjórnar á fundi Borgarstjórnar Reykjavíkur rétt í þessu. Allir borgarfulltrúar kusu hana, alls 15

Sóley kosin fyrsti varaforseti borgarstjórnar

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, var kosin fyrsti varaforseti borgarstjórnar á fundi Borgarstjórnar Reykjavíkur rétt í þessu. Allir borgarfulltrúar Reykjavíkur kusu hana, alls 15.

Hanna Birna verður forseti borgarstjórnar

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi borgarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins, ákveðið að taka boði Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að gerast forseti borgarstjórnar. Sömu heimildir herma að Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, verði fyrsti varaforseti borgarstjórnar. Ekki liggur fyrir hver aðkoma Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna verður að öðru leyti að stjórn borgarinnar og hvort að flokkarnir muni til að mynda stýra einhverjum nefndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×