Viðskipti innlent

Eignir innlánsstofnanna lækka um 32,6 milljarða

Heildareignir innlánsstofnana námu 2.921 milljörðum kr. í lok ágúst 2010 og lækkuðu um 32,6 milljarða kr. frá síðasta mánuði.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans. Þar segir að heildarskuldir lækkuðu um 33,2 milljarða kr. á milli mánaða og námu 2.547 milljörðum kr. í lok ágúst. Eigið fé innlánsstofnana hækkaði því um 0,6 milljarða kr. og nam í lok ágúst 374 milljörðum kr.

Vegna bankahrunsins í október 2008 hefur Seðlabankinn ekki haft tök á að birta heildstæðar tölur yfir íslenskt bankakerfi frá þeim tíma. Undanfarið hefur verið unnið að því að vinna upp skýrslur frá október 2008. Nú liggja fyrir bráðabirgðagögn fyrir desember 2008, desember 2009 og tímabilið janúar - ágúst 2010 í fullri sundurliðun.

Upplýsingarnar byggja á gögnum frá bönkum og sparisjóðum eins og þau liggja fyrir á hverjum tíma. Þar sem töluverð óvissa ríkir um mat á eignum í kjölfar bankahrunsins kunna gögnin að breytast eftir því sem áreiðanlegra verðmat verður til, að því er segir í hagtölunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×