Viðskipti innlent

Bandarískur fjárfestir keypti 25 nýjar íbúðir til að leigja út

Teitur Jónasson talsmaður Michaels Jenkins á Íslandi segir hann hafa trú á að markaðurinn hér nái sér á strik.Fréttablaðið/Valli
Teitur Jónasson talsmaður Michaels Jenkins á Íslandi segir hann hafa trú á að markaðurinn hér nái sér á strik.Fréttablaðið/Valli

Michael Jenkins, bandarískur fjárfestir, hefur í gegn um félag sitt Þórsgarð ehf. keypt 25 íbúðir á Íslandi og hyggst koma þeim í útleigu.

Teitur Jónasson, talsmaður Þórsgarðs og Meira-leiguhúsnæðis, segir að áhugi á Íslandi hafi kviknað hjá Jenkins sem stundi fjárfestingar sínar á ýmsum stöðum. Hann vilji fjárfesta á Íslandi til langs tíma.

„Jenkins metur það sem svo að hér séu góðir fjárfestingarmöguleikar til lengri tíma. Hann hefur trú á því að landið muni ná sér og að það verði aftur eftirspurn á húsnæðismarkaðnum," segir Teitur.

Íbúðirnar sem Jenkins keypti eru í nýbyggingum á Norðurbakkanum í Hafnarfirði, við Löngulínu í Sjálandshverfinu í Garðabæ og við Vallarkór í Kópavogi. Flestar íbúðirnar eru þriggja eða fjögurra herbergja.

Meira-leiguhúsnæði mun að sögn Teits bjóða þessar íbúðir fyrir svipaða leiguupphæð og sé á markaði. Með öðruvísi skilmálum en nú tíðkist, sem miði að því að fólk leigi til langs tíma, eigi hins vegar að tryggja réttindi leigutakans betur, meðal annars með auknum uppsagnarfresti fyrir leigjandann. Leigusalinn njóti samt aðeins þess uppsagnarfrests sem kveðið sé á um í lögum. Þá geti leigjendur skipt um innréttingar og gólfefni kjósi þeir að gera breytingar. - gar








Fleiri fréttir

Sjá meira


×