Viðskipti innlent

Stofnuðu félag til þess að fjárfesta í kvikmyndagerð

Breki Logason skrifar

Framkvæmdarstjóri í Seðlabankanum stofnaði félag ásamt Steingrími Wernerssyni sem hefur það að markmiði að fjárfesta í kvikmyndagerð. Félagarnir hafa sett milljónir í framleiðslu á heimildamynd sem ber heitið, Feigðarflan.

Sigurður Sturla Pálsson er framkvæmdarstjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans en hann á rúm 57% í félaginu Winterhouse ehf. á móti Steingrími Wernerssyni gjarnan kenndum við Milestone.

Félagið Winterhouse var stofnað á árinu 2008 en tilgangur félagsins er framleiðsla kvikmynda, kvikmyndagerð og skyldur rekstur.

Eina fjárfesting félagsins var í verkefninu "Feigðarflan" sem er heimildarmynd á vegum kvikmyndafyrirtækisins Filmus, en Winterhouse setti rúmar þrjár og hálfa milljón í verkefnið á árinu 2008.

Í samtali við fréttastofu í dag sagði Sturla að Winterhouse hafi verið stofnað í þeim tilgangi að styðja við heimildarmyndagerð sem sé eitt af áhugamálum þeirra félaga. Hann segist ekki líta á verkefnið Feigðarflan sem fjárfestingu heldur séu þeir fyrst og fremst að styðja við bakið á kvikmyndagerðarmönnum.

Hann vill lítið segja um myndina annað en að framleiðsla hennar sé í fullum gangi og þeir hafi sett meiri pening í verkefnið á síðasta ári.

Sem kunnugt er flaug Sturla tvisvar með einkaþotu sem Glitnir og Milestone leigðu saman en þá var hann á leið í frí með Steingrími en þeir hafa verið vinir í yfir aldarfjórðung.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×