Viðskipti innlent

Íslandsbanki segist ráða vel við gengisdóm

Íslandsbanki getur vel lifað af áhrifin af gengisdómi Hæstaréttar. Bankinn hefur á síðustu dögum farið vandlega yfir dómsniðurstöðu Hæstaréttar vegna gengistryggðra bílalána og metið hugsanleg áhrif Hæstaréttar á eigið fé Íslandsbanka.

Í tilkynningu segir að fari svo að öll lán í erlendum myntum til einstaklinga verði dæmd ólögleg gæti nafnvirði slíkra krafna bankans á viðskiptavini lækkað töluvert. Samkvæmt útreikningum bankans yrðu hugsanleg áhrif þess á eigið fé bankans ekki meiri en svo að bankinn myndi áfram uppfylla eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins (FME).

Eiginfjárhlutfall bankans var við lok árs 2009 19,8% en kröfur FME kveða á um 16% eiginfjárhlutfall sem er nokkuð hærra en gerist í nágrannalöndum okkar.

Í ljósi mikillar óvissu í kjölfar Hæstaréttardóms um að gengistryggingarákvæði bílasamninga væri ólögmætt telur Íslandsbanki brýnt að skorið verði úr um lögmæti og uppgjörsforsendur annarra slíkra lána til einstaklinga fyrir dómstólum sem allra fyrst.

Íslandsbanki hefur áður lýst því yfir að þeir viðskiptavinir sem þegar hafa nýtt sér úrræði bankans vegna gengistryggðra bílalána hafa ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínum leiði niðurstaða Hæstaréttar eða stjórnvalda til hagfelldari niðurstöðu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×