Lífið

Skóli fólksins lítur dagsins ljós

Kennir stenslagerð Þorgeir Óðinsson, grafískur hönnuður og tónlistarmaður, stendur fyrir Skóla fólksins ásamt unnustu sinni, Sigrúnu Lýðsdóttur. Fréttablaðið/valli
Kennir stenslagerð Þorgeir Óðinsson, grafískur hönnuður og tónlistarmaður, stendur fyrir Skóla fólksins ásamt unnustu sinni, Sigrúnu Lýðsdóttur. Fréttablaðið/valli

Þorgeir Óðinsson, tónlistarmaður og grafískur hönnuður, stendur fyrir námskeiði í stenslagerð sem fram fer í byrjun júní. Námskeiðið er á vegum Skóla fólksins, en Þorgeir stendur einnig á bak við hann ásamt unnustu sinni, Sigrúnu Lýðsdóttur. Að sögn Þorgeirs er hugmyndin að baki skólanum sú að fá fólk til að kenna skemmtileg námskeið og mun skólinn leggja til húsnæði undir kennsluna. Hann segir fólk hafa tekið vel í hugmyndina og að nú þegar hafi margir lýst yfir áhuga á að kenna ýmiskonar námskeið.

Þorgeir vann mikið með stensla áður fyrr og segist hafa ákveðið að kenna slíkt námskeið til að koma af stað Skóla fólksins. „Stensill er mynd sem búið er að skera út og svo málar maður í gegnum myndina. Þó þetta sé mikið notað í götulist þá er einnig hægt að nota stensla á föt, veggina heima hjá þér, húsgögn eða jafnvel á bílinn þinn þannig það má nota þetta í ýmislegt.

Námskeiðið tekur tvo daga, fyrri daginn verður farið í grunninn á stenslagerð og í seinni tímanum verður farið í flóknari útfærslur, svo sem að setja saman nokkra stensla eða vinna í nokkrum litum. Það getur hver sem er lært þetta, en það eru notaðir hnífar til að skera út þannig þetta hentar kannski ekki ungum börnum eða skjálfhentum,“ segir Þorgeir.

Nánari upplýsingar má fá á Facebooksíðu Skóla fólksins. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.