Viðskipti innlent

Félag Kristjáns skuldar rúma tvo milljarða

Skiptastjóri einkahlutafélagsins 7 hægri segir ekki útilokað að Kristján sé í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldum félagsins. Fréttablaðið/E.ÓL.
Skiptastjóri einkahlutafélagsins 7 hægri segir ekki útilokað að Kristján sé í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldum félagsins. Fréttablaðið/E.ÓL.
Eignarhaldsfélagið 7 hægri, einkahlutafélag Kristján Arasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs hjá Kaupþingi, var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku. Lánasamningar félagsins eru allir í erlendri mynt og nema 2,1 milljarði króna.

Skuldirnar eru tilkomnar vegna lántöku Kristjáns við kaup á hlutabréfum í Kaupþingi árið 2006. Allir lánasamningar eru í erlendri mynt og engar eignir til í búinu upp í skuldir, að sögn Helga Birgissonar lögmanns sem skipaður var skiptastjóri. Gjaldþrotið verður auglýst á næstu dögum og hefur skilanefnd Kaupþings, sem er eini kröfuhafinn, tvo mánuði til að lýsa kröfum í búið.

DV greindi frá því í júní í fyrra að lánveitingar Kaupþings til Kristjáns vegna kaupa hans á hlutabréfum í bankanum hefðu um mitt ár 2006 numið tæpum níu hundruð milljónum króna. Þá var ekki útilokað að Kristján hefði tekið aukin lán til frekari hlutabréfakaupa fram að bankahruni.

Kristján sagði í samtali við DV í nóvember 2008 að auk lánsins frá Kaupþingi hefðu hann og kona hans, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi menntamálaráðherra, lagt ævisparnaðinn að veði í hlutabréfakaupin. „Ævisparnaðurinn er farinn, en við eigum þó allavega húsið… Við höfðum mikla trú á Kaupþingi," sagði hann.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að Kristján hafi fært hlutabréfaskuldir sínar inn í einkahlutafélagið 7 hægri ehf. í febrúar 2008 að fengnu leyfi Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, og Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, þá fjármálastjóra bankans.

Stjórn Kaupþings ákvað í miðju bankahruni að aflétta persónulegri ábyrgð þeirra stjórnenda bankans sem hann lánaði háar fjárhæðir til hlutabréfakaupa. Slitastjórn Kaupþings rifti ákvörðuninni í vor og hefur samið við hluta fyrrverandi starfsmanna Kaupþings um endurgreiðslu á láninu.

Helgi útilokar ekki að Kristján sé í persónulegum ábyrgðum fyrir einhverjum hluta lánanna sem hann fékk vegna hlutabréfakaupanna.

Ekki náðist í Kristján vegna málsins þegar eftir því var leitað í gær.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×