Viðskipti innlent

Icesave viðræður á viðkvæmu stigi

Steingrímur J. Sigfússon segir Icesave viðræðurnar vera á viðkvæmu stigi. Mynd/ Vilhelm.
Steingrímur J. Sigfússon segir Icesave viðræðurnar vera á viðkvæmu stigi. Mynd/ Vilhelm.
Fjármálaráðherra segir að viðræður um lausn Icesave deilunnar séu á viðkvæmu stigi. Enn séu bundnar vonir við að hægt sé að leiða málið til lykta með samkomulagi.

Viðræður um lausn á Icesave deilunni hófust aftur í september eftir tveggja mánaða hlé. Í lok maí á þessu ári birti ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, það álit sitt að Íslendingum beri að greiða breskum og hollenskum sparifjáreigendum þá lágmarkstryggingu sem tilskipun um innistæðutryggingar kveður á um. Ef lausn næst ekki í deilunni á næstu mánuðum þykir líklegt að málið fari fyrir EFTA dómstólinn. Sumir telja það einu leiðina, en aðrir segja að best væri að reyna að koma í veg fyrir þá stöðu.

„Það eina sem ég get sagt er það að menn eru enn að tala saman, og það eru samskipti í gangi. Menn binda enn vonir við að það sé hægt að leiða þetta mál til lykta með samningi," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra aðspurður út í stöðu viðræðna.

Fjármálaráðherra segir að viðræðurnar séu á viðkvæmu stigi. Ekki dugi að ræða þær í fjölmiðlum. „Menn eru að reyna að komast áfram í afar viðkvæmri og erfiðri deilu eins og allir vita, og það myndi ekki hjálpa málinu að fara að úttala sig um nákvæmlega hvað þar er á borðinu og hvernig málið stendur," segir Steingrímur. Aðspurður segir hann það ekki vera rétt að hugmynd að bráðabirgðalausn hafi verið kynnt fyrir þingflokkum stjórnarandstöðunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×