Viðskipti innlent

Ólíklegra en áður að Icesave breyti lánshæfismati

„Þótt horfur um lánshæfismat ríkissjóðs hafi batnað, gætir enn vissrar óvissu um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum."
„Þótt horfur um lánshæfismat ríkissjóðs hafi batnað, gætir enn vissrar óvissu um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum."
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að það sé ólíklegra en áður að tafir á lausn á Icesavedeilunni muni hafa áhrif á lánshæfismati landsins. Þetta kom fram í máli seðlabankastjóra á fundi í Seðlabankanum sem nú stendur yfir. Á fundinum var gherð grein fyrir vaxtalækkun bankans í morgun.

„Þótt spá um hjöðnun verðbólgu og slaki í þjóðarbúskapnum gæti gefið tilefni til meiri lækkunar vaxta, gefa nokkrir gagnverkandi þættir tilefni til varfærni. Krónan hefur lítið styrkst frá síðustu vaxtaákvörðun.

Skuldatryggingarálag er enn hátt, þótt það hafi lækkað umtalsvert frá því það var hæst snemma á þessu ári og óróleikinn í tengslum við fjárhagsvanda gríska ríkisins hafi haft fremur takmörkuð áhrif," segir Már.

„Þótt horfur um lánshæfismat ríkissjóðs hafi batnað, gætir enn vissrar óvissu um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Að lokinni annarri endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ættu áhyggjur af getu ríkissjóðs til þess að standa í skilum vegna lána sem falla á gjalddaga árin 2011 og 2012 að vera úr sögunni.

Því er ólíklegra en áður að frekari töf á lausn Icesave-deilunnar hafi áhrif á lánshæfismat Íslands. Hins vegar væri áhættusamt að leysa gjaldeyrishöftin, sem hingað til hafa skýlt krónunni fyrir áhrifum tafa á lausn deilunnar, fyrr en frekari fjármögnun í tengslum við efnahagsáætlunina er í höfn. Því mun lausn gjaldeyrishafta tefjast þar til samkomulag næst eða þar til þriðju endurskoðun áætlunarinnar er lokið.

Óvissan um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum í framtíðinni takmarkar enn svigrúm peningastefnunefndarinnar, þótt í minna mæli sé en fyrir aðra endurskoðun efnahagsáætlunarinnar.

Haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðni eins og spáð er, ættu forsendur þess að draga smám saman úr peningalegu aðhaldi þó að vera áfram til staðar. Eins og ávallt er nefndin reiðubúin

til að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×