Viðskipti innlent

Kreppan hefur mikil áhrif á vinnumarkaðinum

Áhrif kreppunnar sjást vel í hinum ýmsu vinnumarkaðstölum þessa daganna. Þannig hefur atvinnuþátttaka minnkað, atvinnuleysi aukist, fjöldi starfandi dregist saman og vinnustundum fækkað. Þetta kemur fram í niðurstöðum úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar sem birt var nú í morgun.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á 4. ársfjórðungi síðasta árs voru 166.500 starfandi í landinu sem er 8.500 færri en voru starfandi á sama ársfjórðungi 2008. Fólk hefur því dregið sig út af íslenskum vinnumarkaði í kreppunni. Ljóst er að margir hafa orðið á að taka á sig skerðingu á starfshlutfalli en á meðal þeirra sem eru starfandi hefur orðið nokkur fjölgun í hópi þeirra sem eru í hlutastarfi en á móti hefur þeim fækkað umtalsvert sem eru í fullu starfi.

Þannig voru 45.500 starfandi í hlutastarfi á 4. ársfjórðungi 2009 en höfðu verið 44.100 á sama tíma 2008. Á sama tímabili fór fjöldi starfandi í fullu starfi úr 130.900 í 121.000. Miðað við árið í 2009 heild þá hefur fjöldi starfandi dregist saman um 10.800 frá fyrra ári og þar af hefur þeim fjölgað um 2.500 sem eru í hlutastarfi en fækkað um 13.400 sem eru í fullu starfi.

Jafnframt hefur vinnutíminn styst. Þannig var vinnutíminn að meðaltali 38,9 stundir á viku en hafði verið 39,3 stundir á sama ársfjórðungi 2008. Á tímabilinu styttist vinnutíminn um 0,4 stundir hjá þeim sem eru í fullu starfi en á hinn bóginn lengdist hann um 1,3 stundir hjá þeim sem eru í hlutastarfi. Á árinu í heild var meðalfjöldi vinnustunda 39,6 sem er 2 stundum styttri en árið á undan.

Á 4. ársfjórðungi 2009 mældist atvinnuþátttaka 80,3% en á sama tíma árið 2008 mældist hún 81,5%. Á sama tímabili hefur vinnuafli fækkað um 3.900 og má ætla að þar gæti m.a. flutnings fólks úr landi eða jafnvel þeirra sem farið hafa í nám eftir atvinnumissi. Á árinu öllu mældist atvinnuþátttakan 80,9% en hafði verið 82,6% árið á undan.

Þess má geta að þrátt fyrir að atvinnuþátttakan hafi minnkað hér á landi þá er hún enn mikil í samanburði við löndin umhverfis okkur. T.a.m. mældist atvinnuþátttakan, líkt og áður, sú mesta á 3. ársfjórðungi 2009 hér á landi meðal landa innan evrópska efnahagsvæðisins samkvæmt gögnum hagstofu Evrópusambandsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×