Viðskipti innlent

Sameining Flugstoða og Keflavíkurflugvallar kynnt á morgun

Nýtt hlutafélag um starfsemi Keflavíkurflugvallar og Flugstoða verður kynnt á morgun.
Nýtt hlutafélag um starfsemi Keflavíkurflugvallar og Flugstoða verður kynnt á morgun.

Nýtt opinbert hlutafélag um sameinaða starfsemi Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. verður kynnt á morgun.

Samkvæmt tilkynningu frá Flugstoðum þá mun Kristján L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ýta nýja félaginu úr vör og kynna nafn þess við athöfn með starfsfólki og gestum í veitingahúsinu Nauthól á morgun.

Keflavíkurflugvöllur ohf. hefur starfað frá ársbyrjun 2009 og annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarins og flugstöðvarinnar, þjónustu við flugrekendur og hagnýtingu flugvallarins í þágu öryggis- og varnarmála.

Félagið Flugstoðir ohf. hefur starfað frá ársbyrjun 2007 og annast rekstur og uppbyggingu annarra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi ásamt flugleiðsöguþjónustu sem Ísland veitir fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug.

Með sameiningu félaganna er stefnt að enn frekari hagræðingu og skilvirkni í rekstri flugvallar- og flugleiðsöguþjónustu í landinu og lagður grundvöllur að nýrri starfsemi og þjónustu á sviði flugs og viðskipta. Fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu en samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur faglegt eftirlit með starfseminni.

Starfsmenn nýja félagsins og dótturfélaga þess eru samtals um 650. Forstjóri félagsins er Björn Óli Hauksson rekstrarverkfræðingur.

Stjórn félagsins skipa Þórólfur Árnason formaður, Arnbjörg Sveinsdóttir, Arngrímur Jóhannsson, Ásta Rut Jónasdóttir, Jón Norðfjörð, Ragnar Óskarsson og Rannveig Guðmundsdóttir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×