Viðskipti innlent

Quest húðskammar Breta og Hollendinga í Icesavemálinu

Richard Quest hinn þekkti viðskiptafréttamaður á CNN húðskammar Breta og Hollendinga fyrir framkomu sína í garð Íslendinga í Icesave málinu. Þetta kemur fram á bloggi Quest, hinu fyrsta frá honum á nýju ári en kappinn hefur að undanförnu dvalið í fríi í Egyptalandi.

Quest segir að Icesave málið hafi verið honum hugleikið í lok frídaga sinna og sérstaklega sá kvikindaskapur sem Bretar og Hollendingar hafa sýnt Íslandi með því að krefjast greiðslna frá landi sem er gjaldþrota.

„Upphæðin sem krafist er (minna en 5 milljarðar punda) telst smælki þegar haft er í huga að Bretar einir muni taka meir en 500 milljarða punda að láni á næstu tveimur árum," segir Quest.

Þá segir Quest það vera hreinan fantaskap að hóta Íslandi útilokun frá ESB ef Íslendingar skrifi ekki undir og borgi það sem sett er upp. „Það er auðvelt að níðast á smærri fátækari þjóð sem er komin að fótum fram," Quest sem telur þessa framkomu Breta og Hollendinga vera fyrir utan allt velsæmi.

Quest er í engum vafa um að ef íslenska þjóðin hafnar Icesave samkomulaginu í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu muni viðbrögð stjórnvalda Breta og Hollendinga verða á stöðluðum ESB nótum..."ekki hafa áhyggjur, gerið bara eins og við þegar við töpum atkvæðagreiðslum...haldið áfram að spyrja spurningarinnar þar til þið fáið rétta svarið."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×