Viðskipti innlent

The Economist: Ísland að koma inn úr kuldanum

Hið virta hagfræðitímarit The Economist fjallar um muninn á Íslandi og Írlandi í nýjasta tölublaði sínu undir fyrirsögninni: Íslenskur lærdómur, að koma inn úr kuldanum.

Þar segir m.a. að vísbendingar úr íslenska hagkerfinu um bata þess geri það að verkum að Írar geta ekki lengur bent á aðra þjóð sem er í verri stöðu en þeir.

„Íslensk endurreisn felur í sér tvo stóra lærdóma fyrir Írland og önnur evru-lönd sem eiga í vandræðum," segir í The Economist. „Sú fyrsta er að það kemur á óvart hvað aukakostnaður við að land standi ekki við bakið á bankakerfi sínu er lítill. Ísland lét bankakerfi sitt hrynja og landsframleiðsla landsins féll um 15% frá hæsta gildi sínu þar til botninum var náð. Írland „bjargaði" sínum bönkum og sá landsframleiðslu sína falla um 14%."

Hinn lærdómurinn að mati tímaritsins er að hagræðið fyrir litla þjóð að verða hluti af stóru myntkerfi er ekki eins mikið og af var látið. Þegar fjárfestar flúðu úr litlum myntkerfum árið 2008 virtist evran vera himnaríki. Það var jafnvel rætt um að koma Íslandi inn í ESB með hraðmeðferð. Nú tveimur árum síðar lítur evran meira út eins og gildra fyrir þær þjóðir sem berjast við að auka samkeppnishæfni sína.

The Economist segir að hér verði þó að líta til þess að Ísland hafði ekkert val um að bjarga bankakerfi sínu eða ekki. Það var orðið á við tífalda landsframleiðslu landsins og því ekki hægt að bjarga því. Írland reyndi að bjarga sínu bankakerfi enda stærð þess 200-300% af landsframleiðslunni.

Tímaritið segir að þó Ísland sé að rísa upp að nýju sé staða þess síður en svo góð. Gjaldeyrishöft eru til staðar, heimili og fyrirtæki glími við miklar skuldir, fasteignaverð hafi hrunið og um 40% af eignum nýju bankanna skili engum hagnaði.

„Samt sem áður er það sigur að hagkerfi Íslands hefur ekki staðið sig síður en hagkerfi Írlands," segir The Economist. „Næsta ríkisstjórn Írlands gæti fylgt fordæmi Íslands og ákveðið að fara í hart gegn Evrópu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×