Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir fjármagna öryggisíbúðir fyrir Eir

Fjármögnun á lokafrágangi við síðustu áfanga öryggisíbúða hjúkrunarheimilisins Eirar við Fróðengi í Grafarvogi er lokið, en verðbréfafyrirtækið Virðing hf. útvegaði fé til verkefnisins. Alls nam lánsfjárhæðin um ellefu hundruð milljónum króna og kemur fjármagnið frá lífeyrissjóðum landsins.

Í tilkynningu segir að Eir á 110 öryggisíbúðir við Fróðengi. Fyrstu íbúðirnar voru teknar í notkun seint á síðasta ári og þær síðustu verða teknar í notkun síðar á þessu ári.

Við fjármögnun lokaáfanganna fól Eir verðbréfafyrirtækinu Virðingu hf. að útvega lánsfjármagn og fékk fyrirtækið Lífeyrissjóð verslunarmanna, Sameinaða lífeyrissjóðinn, Stafi lífeyrissjóð og veðskuldabréfasjóðinn Virðingu, sem m.a. er í eigu sjö lífeyrissjóða, til að lána til framkvæmdanna.

Að sögn Kristjáns Arnar Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins, er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir leggi sín lóð á vogaskálarnar við áframhaldandi uppbyggingu íbúða fyrir aldraða svo þeir geti á hverjum tíma búið við sem bestar aðstæður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×