Viðskipti innlent

Fjöldi gjaldþrota hefur ekki verið meiri í tvo áratugi á Íslandi

Alls hafa 823 fyrirtæki verið úrskurðuð gjaldþrota á fyrstu 11 mánuðum ársins 2009 sem eru 23% fleiri fyrirtæki en á sama tímabili 2008. Fjöldi gjaldþrota hefur ekki verið meiri í a.m.k. tvo áratugi, eða eins langt aftur og tölur Hagstofunnar ná en það var sú stofnun sem birti tölur um þetta í gærmorgun.

Í Morgunkorninu segir að árið 2009 var aukning gjaldþrota mest á fyrsta þriðjungi ársins en svo tók við tímabil þar sem fjöldi gjaldþrota fyrirtækja var viðlíka eða jafnvel minni en á sama tímabili í fyrra. Í september tók svo gjaldþrota fyrirtækjum að fjölga á ný og voru þau um 65% fleiri en í sama mánuði árið 2008.

Má reikna með að mörgum þeirra fyrirtækja sem hafa orðið illa út í efnahagshremmingum síðustu misseri hafi verið haldið uppi af bönkum og koma þannig afleiðingar kreppunnar fram með töf í gjaldþrotatölum.

Ljóst er að fjöldi fyrirtækja er í verulegum greiðsluerfiðleikum en samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var um fjórðungur fyrirtækja með lán í vanskilum í lok júní síðastliðinn og sökum þess hve stór hluti útlána til fyrirtækja eru kúlulán er líklegt að tölur um vanskil vanmeti vanda fyrirtækja.

Ytri aðstæður í hagkerfinu hafa verið afar erfiðar í byggingariðnaði og er sá samdráttur sem orðið hefur í þessari tegund af starfsemi einnig sjáanlegur í atvinnuleysistölum. Alls hafði um fimmtungur þeirra sem voru án atvinnu í nóvember starfað í mannvirkjagerða, eða rúmlega 2.500 manns. Áður en bankahrunið skall á í byrjun október 2008 var fjöldi atvinnulausra sem áður hafði starfað við mannvirkjagerð rúmlega 200 manns.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×