Viðskipti innlent

Tillögur skoðaðar af alvöru

Jón steinsson
Jón steinsson
„Þessar tillögur eru allrar athygli verðar og á síðasta fundi nefndarinnar tók ég mig nú reyndar til og bað nefndarmenn að taka eintak af greininni til frekari úrvinnslu," sagði Maríanna Jónasdóttir sem er í forsvari fyrir starfshóp fjármálaráðuneytisins sem skoða á skattkerfisbreytingar. Hún vísar þar til tillagna sem Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum, birti í grein í Fréttablaðinu á miðvikudaginn.

Í greininni setur Jón fram þá tillögu að hækka virðisaukaskatt á matvæli í 25,5 prósent og nota hluta af þeim tekjuauka sem af hlytist til þess að lækka lægsta skattþrep tekjuskattkerfisins og hækka persónuafslátt. Jón segir að slík aðgerð muni bæta hag þeirra sem minnst hafa á milli handanna og auka tekjur ríkisins.

Starfshópur fjármálaráðuneytisins hóf nýlega störf og á að skila áfangaskýrslu til ráðuneytisins ekki seinna en 15. júlí.

Talsmenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins voru sammála um að þessa leið bæri að skoða alvarlega en Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, rak þó þann varnagla að hækkanir á virðisaukaskatti hefðu óhjákvæmilega í för með sér hækkun á verðbólgu.

- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×