Viðskipti innlent

Bankarnir mega ekki falla í sama farið aftur

Flest fyrirtæki verða væntanlega komin fyrir horn á næsta ári, að sögn viðskiptaráðherra.Fréttablaðið/GVA
Flest fyrirtæki verða væntanlega komin fyrir horn á næsta ári, að sögn viðskiptaráðherra.Fréttablaðið/GVA

Bankarnir gegna lykilhlutverki við endurreisn efnahagslífsins og verða að setja þeim fyrirtækjum, sem þeir hafa tekið yfir, reglur sem koma í veg fyrir að samkeppnisstaða skekkist, að sögn Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Páll hélt erindi í fyrradag á morgunverðarfundi um yfirtöku banka á atvinnufyrirtækjum. Þar varaði hann við því að feta sömu braut og Japanar í fjármálakreppunni í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Þar hafi ekki verið tekið á skuldavanda fyrirtækja og óhagkvæmum fyrirtækjum haldið gangandi. „Tryggja þarf að hér séu starfandi bankar sem þora og geta tekið ákvarðanir um viðfangsefni sín."

Þá kom fram á fundinum að mikilvægt er að koma fyrirtækjunum út úr bönkunum eins fljótt og auðið er, ýmist með því að selja þau í opnu ferli beint úr bönkunum eða skrá þau á markað.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagðist reikna með að flest fyrirtæki landsins verði komin fyrir horn í lok næsta árs. Hann varaði við því að fyrirtækin féllu í sama farið og yrðu að skuldsettum samsteypum. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×