Viðskipti innlent

Ávöxtunarkrafa skuldabréf ekki lægri síðan eftir hrunið

Ávöxtunarkrafa flestra markflokka á skuldabréfamarkaði er nú lægri en hún hefur nokkru sinni verið, ef undan eru skildar fyrstu vikurnar eftir fall bankanna haustið 2008 í þeim flokkum sem þá voru við lýði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandabanka. Þar segir að þannig sé ávöxtunarkrafa styttri ríkisbréfaflokkanna á bilinu 3,70% - 4,26% þegar þetta er ritað (kl.10.30), en krafa þessara flokka var í kring um 7,50% í upphafi árs.

Krafa tveggja lengstu ríkisbréfaflokkanna, RIKB19 og RIKB25, hefur sömuleiðis lækkað linnulítið frá áramótum. Var krafa þessara flokka í kring um 8% í janúarbyrjun en er nú 6,06% á fyrrnefnda flokknum en 6,16% á þeim síðarnefnda. Til samanburðar eru innlánsvextir Seðlabankans, sem þessa dagana eru virkustu skammtímavextir bankans, nú 7,0%.

Auk lækkunar Seðlabankavaxta undanfarið skýrir mikill áhugi erlendra krónueigenda lága ávöxtunarkröfu stuttu ríkisbréfaflokkanna að verulegu leyti. Öðru máli gegnir um löngu ríkisbréfaflokkana tvo, en útlendingar eiga einungis lítinn hluta þeirra. Þar hafa lífeyrissjóðir og aðrir innlendir fagfjárfestar hins vegar reynst áhugasamir kaupendur. Samkvæmt nýjasta markaðsyfirliti Lánamála ríkisins áttu slíkir aðilar í apríllok tæplega 68% af RIKB25-flokknum og tæp 38% af RIKB19-bréfunum.

Þótt krafa lengri íbúðabréfa hafi einnig lækkað frá áramótum hefur hin mikla kröfulækkun ríkisbréfanna skilað sér í verulegri lækkun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði það sem af er ári. Verðbólguálag til 3ja ára er nú 1,3% og til 7 ára er verðbólguálagið 2,6%. Sambærilegar tölur í upphafi árs voru 4,5% og 3,9%.

Þótt hjöðnun verðbólgu undanfarna mánuði eigi vafalaust sinn þátt í þessari þróun koma fleiri þættir til. Má þar nefna það gólf sem 3,5% tryggingarfræðileg uppgjörskrafa lífeyrissjóðina hefur sett kröfu á verðtryggðum skuldabréfum, þar sem sjóðirnir vilja hafa ógjarnan viljað kaupa íbúðabréf á lægri kröfu. Sprunga kom hins vegar í þetta gólf í síðustu viku og hefur krafa lengri íbúðabréfaflokkanna verið undir 3,5% markinu undanfarna daga. Krafa þeirra er nú á bilinu 3,32% - 3,38%.

Í raun eiga lífeyrissjóðirnir fárra kosta völ, vilji þeir kaupa ríkistryggð skuldabréf á kröfu sem ekki hefur neikvæð áhrif á tryggingarfræðilega stöðu þeirra þar sem krafa flestra ríkisbréfaflokka er undir þeim 6,1% mörkum á nafnkröfu sem samsvarar í grófum dráttum 3,5% raunvaxtaviðmiðinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×