Viðskipti innlent

Keypti Lýsi af vinum sínum á 235 milljónir í miðju hruni

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Guðbjörg Matthíasdóttir í Vestmannaeyjum keypti Lýsi hf. af vinum sínum þeim Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni og Katrínu Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Lýsis, á 235 milljónir króna í miðju bankahruninu. Guðbjörg fékk lán fyrir öllu kaupverðinu.

Lýsi hf. var að stærstum hluta í eigu Katrínar Pétursdóttir, framkvæmdastjóra Lýsis og Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, lögfræðings og fyrrverandi formanns Útvarpsráðs, en saman fóru þau með 83 prósenta hlut.

Hnotskurn ehf. eignarhaldsfélag þeirra Gunnlaugs Sævars og Katrínar tapaði miklu á hlutabréfum í FL Group, en langtímaskuldir þess félags samkvæmt ársreikningi voru 2,7 milljarðar króna í lok árs 2008. Einu eignir félagsins voru hlutabréf í FL Group sem eru verðlaus í dag.

Hinn 7. október 2008, í miðju bankahruninu og daginn eftir setningu neyðarlaganna, stofnaði Guðbjörg Matthíasdóttir eignarhaldsfélagið Ívar ehf. og keypti það félag síðan 83 prósenta hlut Gunnlaugs Sævar og Katrínar í Lýsi á tæplega 235 milljónir króna. Allt kaupverðið var fengið að láni, samkvæmt ársreikningi Ívars fyrir árið 2008.

Samkvæmt þessu var Lýsi hf. metið á 283 milljónir króna þegar kaupin áttu sér stað, en hagnaður félagsins fyrir skatt og vaxtagjöld var rúmlega hálfur milljarður króna á árinu 2008.

Gunnlaugur Sævar er náinn viðskiptafélagi og fjölskylduvinur Guðbjargar og hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir félög í hennar eigu. Hann er stjórnarformaður Lýsis hf. Lýsi hefur nokkuð stöðuga og örugga tekjustofna og flytur út mikið af lýsi og tengdum afurðum. Eigið fé félagsins var hins vegar neikvætt um rúmlega milljarð króna í árslok 2008. Félagið er mjög skuldsett og voru vaxtaberandi skuldir rúmlega 5,5 milljarðar króna í lok sama árs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×