Erlent

Sautján komnir upp

Mario Gomez var sá níundi til að komast út undir bert loft.
Mario Gomez var sá níundi til að komast út undir bert loft.

Fölskvalaus gleði ríkir nú í Chile þar sem hverjum námumanninum af öðrum er bjargað úr iðrum jarðar. Grátandi ættingjar taka á móti þeim og jafnvel harðbitnir fréttamenn fella tár.

Tólf námumenn af 33 eru komnir upp á yfirborðið þegar þetta er skrifað. Þeir eru hífðir upp um þrönga borholu af 700 metra dýpi í sérhönnuðu björgunarhylki sem er ekki mikið breiðara en axlir þeirra. Ferðin upp tekur um 20 mínútur sem er talsvert styttri tími en búist var við í upphafi. Á meðan eru þeir í talsambandi bæði niður í námuna og upp á yfirborðið.

Það tekur á aðra klukkustund að bjarga hverjum manni því hylkið þarf jú að fara niður aftur, og það er vandlega yfirfarið eftir hverja ferð, bæði niðri í námunni og á yfirborðinu.

Björgunin hófst í nótt með því að einn björgunarmanna seig niður til námumannanna í hylkinu, til þess að stjórna aðgerðum. Það urðu miklir fagnaðarfundir.

Þeir sem þegar eru komnir upp virðast allir í góðu líkamlegu ásigkomulagi. Það var meðvituð ákvörðun að taka hraustustu mennina upp fyrst. Þeir voru valdir með það í huga að þeir ættu auðveldara með að takast á við það ef eitthvað færi úrskeiðis í fyrstu ferðum hylkisins.

Á yfirborðinu bíða ættingjar og vinir. Gleðin er fölskvalaus þegar hver maðurinn kemur upp á eftir öðrum. Ættingjarnir gráta og hrópa og faðma ástvininn að sér.

Stemmingin er slík að jafnvel harðbitnustu fréttamenn hafa sést strjúka burt tár. Í stað þjóðarsorgarinnar sem ríkti fyrir 69 dögum þegar mennirnir voru taldir af, ríkir nú þjóðargleði í Chile.














Tengdar fréttir

Námumennirnir koma upp einn af öðrum

Námumennirnir 33 frá Chile sem hafa verið fastir í iðrum jarðar á rúmlega 600 metra dýpi í rúma tvo mánuði eru farnir að koma upp á yfirborðið einn af öðrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×