Viðskipti innlent

Spáir því að verðbólgan hjaðni í 3,1%

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka í nóvember um 0,5% frá októbermánuði. Gangi spáin eftir mun verðbólga hjaðna úr 3,3% í 3,1% og hefur þá ekki verið lægri frá því í júní 2005.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að seinni hluti gjaldskrárhækkunar OR er einn helsti hækkunarvaldur VNV að þessu sinni, og gerir greiningin ráð fyrir að hann vegi til 0,4% hækkunar vísitölunnar í nóvember. Auk þess má ætla að verðhækkun fatnaðar og eldsneytis leggi hvor um sig 0,1% til hækkunar VNV í mánuðinum.

„Á móti gerum við ráð fyrir lítilsháttar lækkun á reiknaðri húsaleigu og ýmsir innfluttir liðir lækka einnig lítillega að mati okkar, enda hefur gengi krónu verið stöðugt á haustdögum eftir umtalsverða styrkingu hennar á fyrstu átta mánuðum ársins," segir í Morgunkorninu.

Verðbólguþrýstingur er með minnsta móti í íslensku hagkerfi um þessar mundir, enda mikill slaki í hagkerfinu. Að því gefnu að ekki verði samið um umtalsverða hækkun launa í komandi kjarasamningum er í raun fátt sem ýta ætti upp verði á innlendum vörum og þjónustu.

Innflutt verðbólga er sömuleiðis lítil þessa dagana og haldi krónan sjó fram á nýja árið er varla von á mikilli hækkun VNV úr þeirri áttinni, þótt áhrif hækkunar verðs á landbúnaðarvörum á heimsmarkaði á 3. fjórðungi ársins eigi enn eftir að koma fram að einhverju leyti í innlendu verðlagi.

„Teljum við að VNV muni hækka um 0,3% í desember, en að sú hækkun muni ganga til baka með janúarútsölum á nýju ári. Verðbólga mun að okkar mati verða 2,9% í lok ársins," segir í Morgunkorninu.

„Á næsta ári spáum við enn sem fyrr verðbólgu í námunda við 2,5% markmið Seðlabankans. Teljum við að verðbólgan verði að jafnaði 2,3% á árinu 2011, en svo lítil hefur verðbólga ekki mælst hér á landi frá árinu 2003. Helstu forsendur fyrir þeirri spá eru að krónan haldist í námunda við núverandi gildi, hækkun launa í kjölfar kjarasamninga verði hófleg og að ekki verði veruleg hækkun á óbeinum sköttum og opinberum gjaldskrám næstu misserin.

Þá gerum við ráð fyrir að íbúðaverð taki að hækka á ný þegar líður á komandi ár og hækki um tæplega 4% á næsta ári að meðaltali."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×