Viðskipti innlent

Fitch Ratings: Ákvörðun forsetans setti fjármögnun í uppnám

Paul Rawkins forstjóri ríkjahóps Fitch Ratings í London segir að matsfyrirtækið hafi lækkað lánshæfiseinkunn Íslands í ruslflokk þar sem ákvörðun forseta Íslands hefði sett utanaðkomandi fjármögnun til landsins í uppnám að mati Fitch.

Þetta kemur fram í lesendabréfi Rawkins til Financial Times sem birt er í dag. Þar tekur Rawkins skýrt fram að hið nýja mat Fitch hafi ekkert að gera með spurninguna um eða mat á hvort Ísland hafa alþjóðlegar lagaskyldur til að greiða Icesave eins og aðrir hafi haldið fram. Vitnar Rawkins m.a. til álits Michael Waibel í lesendabréfi til Financial Times þess efnis þann 8. janúar s.l.

Þá kemur fram í bréfinu að Fitch hafi ætíð haldið því fram að það skipti höfuðmáli fyrir efnahagslega uppbyggingu á Íslandi að niðurstaða fengist í Icesave málinu. Bendir hann m.a. á tafir þær sem orðið hafa á endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) vegna Icesave og óvissunnar um hvort Norðurlöndin veiti Íslandi viðbótarlán.

Jafnframt bendir Rawkins á að ekki sé enn ljóst hvort önnur endurskoðun á efnahagsáætlun AGS og Íslands fari fram sökum þess að Icesave deilan sé óleyst. Án stuðnings AGS og annarra þjóða verði staða efnahagsmála á Íslandi mjög brothætt og afnám gjaldeyrishafta tefjist.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×