Viðskipti innlent

Krafa um að vísa slitastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans frá

Í morgun lagði Guðmundur Andri Skúlason inn hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, beiðni um að slitastjórn Frjálsa fjárfestingabankans yrði þegar í stað vísað frá og að samhliða því yrðu allar aðgerðir þeirra afturkallaðar og lýstar ógildar.

Í tilkynningu frá Guðmundi Andra, sem er talsmaður HLF - Hagsmunasamtök lánþega Frjálsa fjárfestingabankans, segir að grundvöllur þessarar kröfu á sér stað í lögum um gjaldþrotaskipti þar sem fjallað um hæfi skiptastjóra að engan megi skipa í starf skiptastjóra nema hann: "yrði ekki vanhæfur sem dómari í einkamáli sem þrotamaðurinn eða sá sem á kröfu á hendur þrotabúinu ætti aðild að eða, ef félag eða stofnun er til gjaldþrotaskipta, í einkamáli sem stjórnarmenn eða starfsmenn sem hafa haft daglega stjórn félagsins eða stofnunarinnar með höndum ættu aðild að."

„Ég tel augljóst að þar sem skiptastjóri er jafnframt stjórnarformaður í stærsta kröfuhafanum (Hlynur Jónsson stjórnarformaður Dróma hf og formaður slitastjórnar Frjálsa fjárfestingabankans) og að meðstjórnandi í slitastjórn, Jóhann Pétursson er jafnframt meðstjórnandi í stjórn Dróma hf. þá beri án vafa að bera fyrir sig hæfisákvæði 13 kafla gjaldþrotalaga," segir í tilkynningunni.

Guðmundur Andri segir að einnig megi ljóst telja að Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl., starfsmaður á lögmannsstöfunni Kvasir lögmenn og meðstjórnandi í slitastjórn Frjálsa fjárfestingabankans, sé vanhæf sökum tengsla við formann slitatjórnar, Hlyn Jónsson, sem er formaður stjórnar stærsta kröfuhafa í þrotabú Frjálsa fjárfestingabankans. Þau eru bæði samstarfsaðilar og meðeigendur lögmannsstofunnar Kvasir lögmenn samkvæmt heimasíðu stofunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×