Viðskipti innlent

Markmið ESB styrkja samkeppnisstöðu Landsvirkjunar

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Markmið Evrópusambandsins um losun gróðurhúsalofttegunda og nýir kolefnisskattar styrkja mjög samkeppnisstöðu Landsvirkjunar, en liður í framtíðarsýn fyrirtækisins er sókn inn á nýja markaði.

Á sögulegum ársfundi Landsvirkjunar í gær þar sem forstjórinn Hörður Arnarson, greindi í fyrsta sinn frá raforkuverði sem stóriðjufyrirtækin greiða, útlistaði Hörður framtíðarsýn og breyttar áherslur í rekstri Landsvirkjunar.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær ætlar Hörður að minnka vægi framkvæmda, tími framkvæmdagleðinnar er því liðinn. Þess í stað verður aukin áhersla á sókn inn á nýja markaði. Nýjar leiðir verða fundnar fyrir Landsvirkjun til að græða peninga, ekki bara með því að selja stóriðjufyrirtækjunum orku.

Hörður sagði að markmið Evrópusambandsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda styrktu samkeppnisstöðu Landsvirkjunar.

„Það eru hinsvegar pólitískar ákvarðanir sem hafa mikil áhrif á okkur og bæta mikið samkeppnisstöðu okkar,“ sagði Hörður. Evrópusambandið hefði sett sér skýr markmið um draga úr losun losun gróðurhúsalofttegunda um 20% fyrir 2020, framleiða 20% af raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum og draga úr orkunotkun um 20%.

Hörður vék að sóknarfærum Landsvirkjunar. Hann sagði að í ljósi breyttrar stöðu á raforkumörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum væru margir aðilar á markaðnum sem vildu færa sig úr því umhverfi sem þar hefur myndast. Landsvirkjun vill bæta við sig 20 nýjum viðskiptavinum.

„Við þurfum ekki marga. Við erum ekki að leita af stórum hóp þannig að þetta er algjörlega framkvæmanlegt í mínum huga,“ sagði Hörður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×