Viðskipti innlent

Veiking evru bætir erlenda stöðu þjóðarbúsins

Nokkur breyting hefur orðið til batnaðar í erlendri stöðu þjóðarbúsins samkvæmt tölum Seðlabankans sem birtar voru í gær. Þannig var hrein staða við útlönd neikvæð um 5.895 milljarða kr. í lok fyrsta ársfjórðungs 2010 og batnar um 400 milljarða kr. frá því í lok síðastliðins árs, þá aðallega vegna veikingar evrunnar.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Erlendar skuldir þjóðarbúsins námu 14.365 milljörðum kr.,eða sem nemur tæplega tífaldri áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins, en erlendar eignir voru 8.471 milljarðar kr.

Erlendar skuldir gömlu bankanna vega þungt í þessum tölum en þær munu hverfa smám saman á næstu misserum samhliða eignasölu og afskriftum á skuldum. Þannig voru erlendar eignir þeirra í lok fyrsta ársfjórðungs um 6.525 milljörðum kr. og erlendar skuldir um 11.338 milljörðum kr.

Þegar ofangreindar tölur eru leiðréttar fyrir erlendum eignum og skuldum gömlu bankanna, þá kemur því mun betri staða þjóðarbúsins í ljós. Fara erlendar skuldir þá niður í 3.028 milljarða kr. og erlendar eignir í 1.946 milljarða kr. Er hrein erlend staða við útlönd því neikvæð um 1.082 milljarða kr. að gömlu bönkunum undanskildum.

Það er svipuð staða og í ársbyrjun 2006, en hafa verður í huga að þótt kúfurinn af nettóskuldum gömlu bankanna þurrkist út stendur eftir meðal erlendra skulda sá hluti eigin fjár þeirra sem verður í eigu erlendra kröfuhafa eftir að slitameðferð þeirra lýkur.

Þess skal getið að þessum tölum ber að taka með fyrirvara þar sem enn eru takmarkaðar upplýsingar um erlendar eignir og skuldir banka í slitameðferð og eru þá framreiknaðar eins og þær stóðu við þrot þeirra. Auk þess ber að hafa í huga að ýmislegt gæti orðið til þess að hrein erlend staða versni að nýju. Má hér nefna að erlendar skuldir hins opinbera gætu aukist nokkuð á næstu misserum svo ekki sé minnst á að skuldbindingin vegna Icesave er hér ekki meðtalin.

Einnig mun það hafa umtalsverð áhrif til hins verra á erlenda skuldastöðu hins opinbera, og þar með á hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins, ef neyðarlögunum sem sett voru á um haustið 2008 verður hnekkt. Hins vegar er raungengi krónunnar enn afar lágt í sögulegu samhengi og má ætla að þegar litið er til lengri tíma komi það til með að hækka sem mun bæta hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins í hlutfalli við landsframleiðslu að öðru jöfnu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×