Viðskipti innlent

Seltjarnarnes áætlar 50 milljóna afgang á næsta ári

Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur samantekins ársreiknings Seltjarnarnesbæjar á næsta ári verði 50 milljónir króna. Útsvarsprósenta á árinu 2011 verður 12,98%, sem er undir leyfilegu hámarksútsvari sem er 13,28%. Útsvarstekjur eru áætlaðar 1.620 milljónir kr. Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 190 milljónir kr. sem er sama álagning í krónum talið og árið 2010.

Í tilkynningu um málið segir að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær. Áætlunin var unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Neslista og Samfylkingar líkt og gert var fyrir árið 2010.

Við gerð áætlunarinnar var leitað allra leiða til þess að mæta alvarlegum samdrætti í tekjum bæjarins og kostnaðarhækkunum með áframhaldandi hagræðingu í rekstri að leiðarljósi. Þrátt fyrir verulegan niðurskurð útgjalda á sl. tveimur árum lá fyrir að brúa þyrfti bil sem nemur um 10 - 15% af skatttekjum bæjarins á yfirstandandi ári.

Vandlega var farið yfir einstök rekstrarsvið og útgjaldaþætti í þeim tilgangi að ná fram enn meiri rekstrarhagræðingu, draga úr kostnaði og takast á við áleitnar spurningar um eðli, tilgang og réttmæti þeirra.

Bæjarfélagið hefur undanfarið reynt að halda uppi sama þjónustustigi með minna fé til ráðstöfunar. Dregið hefur verið úr yfirbyggingu rekstrarins og mannafl samnýtt á ýmsa vegu. Ströng hagræðingarkrafa er gerð til yfirstjórnar, sem og stjórnunardeilda stofnana sveitarfélagsins.

Samþykkt er að framlengja lækkun launa stjórnenda bæjarins fyrir árið 2011, einnig verður framlengt að bæjarfulltrúar fái ekki greidd nefndarlaun fyrir árið 2011. Starfsfólk Seltjarnarnesbæjar tekur að sér aukin verkefni auk þess sem áhersla er lögð á enn frekara samstarf milli stofnana og deilda í því skyni að ná sem mestri rekstrarhagræðingu. Hagrætt verður í viðhaldsverkefnum og þeim forgangsraðað af brýnni þörf og öryggissjónarmiðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×