Viðskipti innlent

Búast við lækkun matarverðs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
ASÍ segir að tilefni sé til þess að matarverð lækki miðað við styrkingu krónunnar. Mynd/ Hrönn.
ASÍ segir að tilefni sé til þess að matarverð lækki miðað við styrkingu krónunnar. Mynd/ Hrönn.
Vörukarfa ASÍ hefur hækkað um 2-7% í helstu verslunarkeðjum frá því í maí í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá ASÍ hefur verð körfunnar þó lækkað nokkuð í flestum verslunarkeðjum frá því hún var hæst í febrúar síðastliðnum eftir nær samfeldar verðhækkanir síðan um mitt ár 2008.

ASÍ segir að undanfarið ár hafi verð vörukörfunnar hækkað mest í klukkubúðunum Ellefu-ellefu um 13% og Samkaupum-Strax um 7%. Í lágvöruverðsverslunum hafi verð körfunnar hækkað mest í Bónus, eða um 6,4% frá því í maí í fyrra.

Séu skoðaðar tvær síðustu mælingar verðlagseftirlitsins á vörukörfunni í ferbúar síðastliðinn og nú í júní má sjá nokkra lækkun í flestum verslunarkeðjum á tímabilinu að Nettó, Kosti og Ellefu-ellefu undanskildum. ASÍ telur að áhrifa af sterkara gengi krónunnar sé farið að gæta í vöruverði en í ljósi þeirrar styrkingar sem orðið hafi á genginu undanfarna mánuði sé tilefni til áframhaldandi lækkunar á matvöruverði.

Verðlagseftirlit ASÍ mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×