Viðskipti innlent

Áætla 188 milljóna afgang hjá Vestmanneyjabæ

Helstu niðurstöðutölur í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2011 eru þær að gert er ráð fyrir að sveitarsjóður skili hagnaði að upphæð 188 milljóna kr. í stað 132 milljóna í áætlun 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu en fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn 9. desember í samræmi við reglur um bókhald sveitarfélaga og hefðir sem myndast hafa hjá Vestmannaeyjabæ. Síðari umræða fer fram 16. desember.

Þá er reiknað með því að veltufé sveitarsjóðs frá rekstri verði jákvætt um rúmar 345 milljónir kr. en það var áætlað tæpar 345 milljónir kr. árið 2010 og 487 milljónir kr. árið 2009. Gert er ráð fyrir að samstæðan sýni rekstrarhagnað að upphæð 138 milljónir kr. og veltufé samstæðu verði 479 milljónir en það var áætlað 441 milljón kr. fyrir 2010 og 544 milljónir fyrir árið 2009.

Heildarskatttekjur eru áætlaðar 1.737 milljónir kr. Þar er um 13% lækkun frá rauntekjum ársins í ár að ræða og ræður þar mestu að gert er ráð fyrir 15% skerðingu á úrsvari. Skýringin sem þar liggur að baki er margþætt. Það sem mestu ræður er annarsvegar trú á að krónan styrkist sem veldur lækkun á afurðarverði og þar með tekjum Vestmannaeyjabæjar og þær ömurlegu væringar sem eru í kringum sjávarútveginn og dregur úr honum mátt og þrótt á verstu tímum, að því er segir í tilkynningunni.

Þá eru heildartekjur samstæðu áætlaðar 3.121 milljón kr. þegar millifærslur hafa verið dregnar frá en voru áætlaðar 2.996 milljónir kr. fyrir árið í ár (4% hækkun).

Heildargjöld sveitarsjóðs eru áætluð 3.189 milljónir kr. í stað 3.359 milljóna í ár. Hér er 5% lækkun að ræða.

Allt frá árinu 2007 hefur Vestmannaeyjabær nýtt allt laust fé í uppgreiðslu lána og sjást þess glögg merki í fjárhagsáætlun fyrir árið 2011. Greiddar afborganir samstæðu voru í áætlun fyri árið 2008 734 milljónir kr. en í áætlun fyrir 2011 eru gert ráð fyrir 121 milljón kr. eða um 613 milljónum minna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×