Viðskipti innlent

Ávöxtunarkrafa á aflahlutdeild hefur minnkað verulega frá 1992

Aukin óvissa um framtíð fiskveiðistjórnunar síðustu ár kann að hafa dregið úr viðskiptum.
Aukin óvissa um framtíð fiskveiðistjórnunar síðustu ár kann að hafa dregið úr viðskiptum. Mynd/Stefán Karlsson
Óvissa um framtíð stjórnunar fiskveiða getur bæði haft áhrif á verð á aflamarki og aflahlutdeildum. Mikilvægt er að lágmarka þá óvissu og fastmóta stefnu til framtíðar sem ekki er hvikað frá. Þetta kemur fram í skýrslu frá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sem ber heitið Skilvirkni markaða fyrir aflaheimildir.

Aukin óvissa um framtíð fiskveiðistjórnunar síðustu ár kann að hafa dregið úr viðskiptum, sem og minna aflamark, sérstaklega í þorski. Erfið fjárhagsstaða útgerða eftir hrun hefur einnig torveldað viðskipti, segir í skýrslunni. Viðskiptin séu eigi að síður lífleg.

Viðskiptum hefur fækkað í takt við fækkandi útgerðir, en þau hafa eigi að síður verið mikil. Enda þótt dregið hafi úr viðskiptum með aflahlutdeildir í aflamarkskerfinu hin síðari ár – og þá sérstaklega eftir hrunið haustið 2008 – eru viðskipti með aflamark lífleg. Undanfarin ár hafa viðskipti á hverju fiskveiðiári svarað til 35-40% af úthlutuðu aflamarki hvers árs.

Svo virðist sem sú ávöxtunarkrafa sem handhafar aflahlutdeilda gera hafi minnkað verulega frá 1992. Þá var hún ríflega 20% en fór hæst í 33% árið 1994. Á þessum árum var ávöxtunarkrafan mun hærri en raunvextir af skuldabréfum, en bilið þar á milli fór síðan minnkandi. Undanfarin ár hefur ávöxtunarkrafan verið minni en 10%, lítið hærri en raunvextir, en vísbendingar eru um að arðsemiskrafan hafi farið hækkandi árið 2008.

Í skýrslunni segir að þessi markaður sé skilvirkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×