Erlent

Svíakóngur ekki í mál útaf bókinni

Óli Tynes skrifar
Karl Gústaf og Sylvia drottning.
Karl Gústaf og Sylvia drottning.

Karl Gústaf  konungur Svíþjóðar hyggst ekki höfða mál á hendur höfundunum þremur sem hafa skrifað um hann bersögla bók. Þar er meðal annars fullyrt að hann hafi haldið framhjá Sylvíu drottningu og stundað allskonar annan ólifnað.

Konungur svaraði spurningum fréttamanna um þetta mál í gær í upphafi árlegra elgveiða. Venjulega mæta á þennan fund fjórir eða fimm blaðamenn en í gær voru þeir sextíu. Og bókin var það eina sem þeir höfðu áhuga á.

Karl Gústaf  sagði að hann hefði aðeins blaðað í bókinni en ekki lesið hana. Hann neitaði ekki þeim ásökunum sem þar koma fram, en sagði að verið væri að fjalla um mál sem hefðu gerst fyrir löngu. Fjölskyldan hefði rætt málið og það væri nú að baki. Hann bað um frið frá frekari umræðu. Frekar er ólíklegt að honum verði að ósk sinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×