Viðskipti innlent

Hlutir í N1 eru ekki til sölu

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Hermann Guðmundsson Forstjóri N1 segir fjárfesta hafa sýnt áhuga á kaupum á hlut í félaginu. Ekkert sé til sölu. Markaðurinn/Stefán
Hermann Guðmundsson Forstjóri N1 segir fjárfesta hafa sýnt áhuga á kaupum á hlut í félaginu. Ekkert sé til sölu. Markaðurinn/Stefán

Fjöldi fjárfesta hefur sýnt áhuga á að gerast hluthafi í olíuversluninni N1 en orðið lítið ágengt. Þar á meðal er erlendur fjárfestir, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Hermann Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins, segir hlut í félaginu ekki til sölu og hafi engin breyting orðið á eignarhaldi þess síðastliðin fjögur ár.

Eignarhaldsfélagið BNT er móðurfélag N1. Helming í því eiga bræðurnir Benedikt og Einar Sveinssynir, löngum kenndir við Engeyjarættina. Hlutinn eiga þeir í gegnum fjárfestingafélögin Mátt og Hafsilfur eignarhaldsfélag. Staða félaganna veiktist verulega eftir bankahrunið, ekki síst eftir að Íslandsbanki tók hlut Máttar í Icelandair Group upp í skuldir í maí í fyrra.

Rekstur N1 hefur hins vegar gengið vel þrátt fyrir efnahagsþrengingar en félagið hagnaðist um tæpar 280 milljónir króna í fyrra samanborið við rúmlega 1,1 milljarðs króna tap árið á undan. Á móti hefur félagið verið nokkuð skuldsett síðan BNT yfirtók reksturinn árið 2006.

Tilkynnt var til Kauphallarinnar um miðjan júlí að hluti af lánum BNT, móðurfélags N1, sé kominn á gjalddaga og hafi ekki verið greitt af þeim á þessu ári. Unnið er að fjárhagslegri endurskipulagningu um þessar mundir.

Sögusagnir hafa verið á kreiki um að Íslandsbanki fari óformlega með stjórn N1 í krafti yfirtöku á helmingshlut í BNT. Hermann vísar því á bug.

„Ég vil ekkert spá um framtíðina. En ég get þó sagt að allir hluthafar eru þeir sömu og í upphafi árs 2006. Engin teikn eru á lofti um að það breytist á næstu dögum,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×