Viðskipti innlent

Össur hf. sækir um afskráningu úr Kauphöllinni

Össur hf. hefur óskað eftir afskráningu úr Kauphöll á Íslandi. Áhersla verður lögð á skráninguna í Kaupmannahöfn.

Í tilkynningu segir að hlutabréf Össurar hf. eru nú til viðskipta í kauphöllum NASDAQ OMX í Kaupmannahöfn og á Íslandi. Stjórn Össurar ákvað í dag að óska eftir afskráningu félagsins úr kauphöll NASDAQ OMX á Íslandi. Félagið mun leggja áherslu á skráninguna í Kaupmannahöfn.

"Össur hefur verið skráð á íslenska hlutabréfamarkaðnum frá 1999 og hefur skráningin gegnt veigamiklu hlutverki í vexti félagsins," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar hf.

„Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa í viðskiptaumhverfinu og á félaginu sjálfu á undanförnum árum er eðlilegt að stíga þetta skref og leggja áherslu á hlutabréfamarkað sem getur stutt við fyrirætlanir um framtíðarvöxt félagsins.

Ég vil undirstrika að þessi ákvörðun hefur aðeins áhrif á skráningu félagsins á hlutabréfamarkað. Starfsemin á Íslandi hefur verið að aukast og við eigum ekki von á breytingu þar á."

Össur hefur verið skráð í kauphöllina í Kaupmannahöfn síðan í september 2009. Þar hefur félagið aðgang að alþjóðlegum fjárfestum á virtum markaði fyrir fyrirtæki á heilbrigðissviði. Um 64% af hlutabréfum félagsins eru nú til viðskipta á danska markaðnum.

Hluthafar þurfa ekki að grípa til neinna ráðstafana vegna þessarar óskar um afskráningu.

Afskráningarbeiðnin verður send án tafar til NASDAQ OMX á Íslandi. Frekari upplýsingar verða birtar þegar afstaða hefur verið tekin til beiðni félagsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×