Viðskipti innlent

Jón ætlar að hreinsa mannorð sitt

Jón Sigurðsson segist vera saklaus.
Jón Sigurðsson segist vera saklaus.

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, mótmælir harðlega ásökunum skattrannsóknarstjóra sem nú hefur krafist þess að eignir hans verði kyrrsettar. Hann segist ætla að hreinsa mannorð sitt.

Jón segist engin lög hafa brotið. Skattyfirvöld segja kyrrsetninguna nauðsynlega til að ná inn fjármunum til tryggingar fyrir hugsanlegri fésekt vegna meintrar refsiverðar háttsemi Jóns í tengslum við skil Stoða á virðisaukaskatti á árunum 2005 til 2007.

Þessu hafnar hann og segist aldrei hafa haft beina aðkomu að virðisaukaskattskilum fyrir félagið. Auk þess hafi hann verið forstjóri félagsins í 27 daga á því tímabili sem meint brot áttu að hafa átt sér stað.

Jón tekur það fram að fasteignir sem hann færði yfir á nafn eiginkonu sína í fyrra hafi verið skráðar aftur á hans nafn.

Hans bíði nú það verk að hreinsa mannorð sitt. Fyrsta skrefið á þeirri leið sé að kæra þessa málsmeðferð skattyfirvalda til Héraðsdóms Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×