Viðskipti innlent

Nær öruggt að ESB setur löndunarbann á makríl

Samkvæmt vefsíðunni FISHupdate er talið nær öruggt að ESB muni setja löndunarbann á íslenskan makríl í evrópskum höfnum. Þetta bann yrði þó fyrst og fremst táknrænt þar sem íslensk skip landa engum makríl í þessum höfnum.

Á FISHupdate segir að dropinn sem fyllti mælinn hvað þetta löndunarbann varðar er að Íslendingar ákváðu nýlega að auka við þegar umdeildan kvóta sinn í makrílveiðum úr 130.000 tonnum á þessu ári og í 146.800 tonn á næsta ári.

Skoskir ráðherrar og talsmenn útgerða fagna löndunarbanninu og segja það vera réttláta refsingingu fyrir „ábyrgðarlausa hegðun" Íslendinga.

Fram kemur á vefsíðunni að Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB muni þrýsta í gegn banni á útflutning makrílafurða til ESB en greint var frá því á vísir.is í síðustu viku að starfsmenn Damanaki væru að vinna að löggjöf sem gerði slíkt mögulegt. Það hefði þó væntanlega sömu áhrif og löndunarbannið, það er lítil sem engin.

FISHupdate segir að mikil eftirspurn eftir hágæða hvítum fiski geri það auðvelt fyrir Íslendinga að selja makrílafurðir sínar utan ESB. Nefnir vefsíðan sem dæmi að Færeyingar hafi auðveldlega komist frá löndunarbanni á makríl með því að semja við Rússa um að kaupa allan makríl sem þeir veiða.

Hvað varðar löndunarbann á aðrar afurðir eins og þorsk eða ýsu segir FISHupdate að slíkt sé afar ólíklegt enda myndi það fyrst og fremst stórskaða fiskiðnaðinn á stöðum eins og Grimsby og Hull.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×