Viðskipti innlent

Keypti lúxusbíla fyrir starfsmenn fyrir tugi milljóna

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Icelandair Group og dótturfélög þess keyptu lúxusbifreiðar fyrir stjórnendur sína og lykilstarfsmenn fyrir marga tugi milljóna króna á þessu ári, eftir að Framtakssjóður lífeyrissjóðanna lagði fyrirtækinu til nýtt hlutafé.

Ellefu lúxusbílar keyptir fyrir starfsmenn

Stöð 2 fór yfir skráningar fyrirtækisins og dótturfélaga þess í Ökutækjaskrá eftir að Framtakssjóður Íslands, sem er í eigu nokkurra lífeyrissjóða, keypti hlut í fyrirtækinu fyrir þrjá milljarða króna í formi nýs hlutafjár í júní síðastliðnum. Fréttastofa tók eingöngu saman þá lúxusjeppa og aðra einkabíla sem Icelandair Group og dótturfélög fyrirtækisins keyptu, en ekki vinnubíla, eins og pallbíla, sendibíla og smærri bíla. Þessi athugun leiddi í ljós í ljós að keyptir voru ellefu bílar fyrir starfsmenn frá því að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í fyrirtækinu í júní og til dagsins í dag. Í vafatilvikum fletti fréttastofa bílunum sérstaklega upp með það fyrir augum að taka ekki með neina vinnubíla í samantektina.

Um er að ræða bifreiðar eins og þónokkra Toyota Land Cruiser, Land Rover, Nissan Pathfinder jeppa, Lexus RX350, Audi A6 og Volvo S60. Samanlagt verðmæti þessara bifreiða nálgast eitt hundrað milljónir króna miðað við skráð verðmæti á vef Bílgreinasambandsins. Ef borin eru saman kaup á einkabílum í dýrari kantinum á þessu ári eftir endurfjármögnun Icelandair Group og bílakaup á síðasta ári sést að hjá flestum dótturfélögum samstæðunnar voru ekki keyptir bílar í fyrra og því er um nokkra aukningu að ræða.

Langmest keypt í góðærinu

Við samantekt úr Ökutækjaskrá kom ekki sérstaklega á óvart að langflestar bifreiðar voru keyptar á árinu 2007 og 2008, fyrir bankahrunið. Þar voru jafnframt flestar nýskráningar. En er eitthvað samhengi á milli bættrar lausafjárstöðu Icelandair og þessara bílakaupa fyrir starfsmenn á árinu 2010? „Nei, það er ekkert samhengi þar á milli. Þarna er einfaldlega um að ræða endurnýjun á leigusamningum sem voru að falla úr gildi. Ýmist sömdu menn um nýja leigusamninga eða kaup á bílum," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. Hann segir að enginn nýskráður bíll hafi verið tekinn inn og horft hafi verið sérstaklega til þess að taka inn nokkurra ára gamla bíla. Björgólfur fullyrðir að endurnýjun á bílum starfsmanna á þessu ári hafi ekki haft í för með sér teljandi viðbótarkostnað fyrir fyrirtækið og segir raunar að slíkt hafi haft í för með sér lækkun á kostnaði. Rekstur Icelandair Group hefur gengið vel það sem af er ári. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 5,1 milljarði króna, en samstæðan tapaði 10,6 milljörðum króna í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×