Viðskipti innlent

Hagnaður Faxaflóahafna rúmar 100 milljónir í fyrra

Í skýrslu stjórnar Faxaflóahafna sem lögð var fram á aðalfundi félagsins í vikunni var m.a. nefnt að þrátt fyrir erfitt árferði hefði rekstur Faxaflóahafna sf. verið viðunandi og hagnaður ársins 2009 um 103.8 milljónir kr.

Þetta kemur fram í frétt af fundinum á vefsíðu Faxaflóahafna. Þar segir að samþykkt var á fundinum að greiða eigendum fyritækisins arð og er það í fyrsta skipti sem slíkt er gert á grundvelli hafnalaga.

Farið var yfir helstu verkefni Faxaflóahafna sf. á árinu 2009 m.a. framkvæmd hugmyndasamkeppni um Gömlu höfnina, undirbúningsverkefni í Sundahöfn vegna fyrirhugaðra stálþilsframkvæmda þar í framtíðinni, framkvæmdir á Grundartanga og rannsóknarvinnu vegna Akraneshafnar svo dæmi séu tekin.

Ný stjórn Faxaflóahafna er þannig skipuð: Formaður: Hjálmar Sveinsson. Aðrir í stjórn: S. Björn Blöndal, Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Páll Brynjarsson, Sturlaugur Sturlaugsson, Sigurður Sverrir Jónsson. Áheyrnarfulltrúi er Gunnar Sigurðsson og áheyrnarfulltrúi starfsmanna Hermann Bridde.

Undirritað var samkomulag um samstarf Útvegsmannafélaganna í Reykjavík og á Akranesi, sem felur í sér aukna samvinnu útgerðaraðila innan Faxaflóahafna sf.

Í lok fundarins var Jóni Ásbjörnssyni hf. og Fiskkaupum hf. veitt umhverfisviðurkenning Faxaflóahafna sf., Fjörusteininn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×