Viðskipti innlent

Norræn samkeppni meðal hagfræðinga

Norræna ráðherranefndin, í samstarfi við fjármálaráðuneytið í Danmörku, efnir til samkeppni meðal hagfræðinga með verðlaunum sem nema 250.000 danskra króna.. Verðlaunin, þar á meðal fyrstu verðlaun sem eru 150.000 danskar krónur, verða veitt fyrir bestu greiningu á því hvort efnahagsstefna undanfarins hagsveiflutímabils hafi verið í samræmi við markmið um stöðugleika í hagsveiflu.

Fjallað er um málið á vefsíðunni norden.org. Þar segir að gert sé ráð fyrir að greiningin taki til Norðurlanda og einnig annarra landa sem hlut eiga að máli. Umsóknarfrestur er 1. júlí 2010. Leiðandi norrænir hagfræðingar munu meta innsendar tillögur og tilnefna vinningshafa sumarið 2010.

Á undanförnu hagsveiflutímabili hefur í mörgum ríkjum orðið til ósamræmi í almennri efnahagsþróun og ríkisfjármálum. Því skiptir máli að kanna hvort, og þá hve mikið, fjármála- og peningastefna hefur haft áhrif í þá átt að leiðrétta þetta ósamræmi.

Norræna ráðherranefndin, í samstarfi við fjármálaráðuneytið í Danmörku, ákvað því að efna til samkeppni með það að markmiði að varpa ljósi á fjármála- og peningamálastefnu Norðurlandanna og hvort stefna þeirra hafi verið í samræmi við markmið sem stuðla áttu að stöðugleika.

Greiningin má gjarnan vera samanburðarrannsókn þar sem Norðurlönd eru borin saman við önnur ríki, til að mynda í ESB. Æskilegt er að tekið verði tillit til áhrifa (skammtíma og langtíma) af fjármála- og peningastefnu á efnahagskerfið þar sem það hefur þýðingu.

Í mati verður lögð áhersla á, að greiningin byggi á fræðilegum grunni og rannsóknum og að sjónum verði beint að þeirri stefnu sem fylgt var á síðasta hagsveiflutímabili. Í tillögunum skal gefa rökstudd svör við því að hve miklu leiti stjórnmálastefna getur jafnað út hagsveiflur.

Í matinu verður einnig lögð áhersla á faglega nákvæmni og framsetningu á niðurstöðum sem geta haft áhrif á pólitíska stefnumótun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×