Viðskipti innlent

Almenningur tapaði 80 milljörðum króna

Tap 56 þúsund einstaklinga vegna glataðrar hlutabréfaeignar í bönkunum og nokkrum öðrum almenningshlutafélögum sem fóru í þrot í framhaldi bankahrunsins nam samtals 183 milljörðum króna.

Tap fólks var mismikið. Langflestir, um fjörutíu þúsund, töpuðu fjárhæðum upp að einni milljón króna. Tæplega átta þúsund töpuðu frá einni til þremur milljónum og 3.400 manns töpuðu á bilinu þremur til sex milljónum.

Þessar upplýsingar er að finna í gögnum sem Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lét taka saman í byrjun ársins.

Í þeim er greint á milli þeirra sem áttu meira eða minna en 50 milljónir í hlutabréfum. Fram kemur að 286 einstaklingar áttu samtals 103 milljarða króna í hlutabréfum. 96 þeirra eru fæddir fyrir 1944. Heildarupphæð eignar þeirra nam rúmum 15 milljörðum. Hinir 190 áttu samtals 88 milljarða í hlutabréfum.

Pétur Blöndal segist hafa látið taka þessar upplýsingar saman til að sýna fram á að fjármagnseigendur hefðu, öfugt við það sem oft er haldið fram, tapað miklu í hruninu. „Þetta sýnir að næstum 60 þúsund manns sem, áttu samtals um 80 milljarða og að meðaltali eina og hálfa milljón, töpuðu sínu."

Pétur setur þessa fjárhæð í samhengi við umræðuna um gengislánin. Þau hafi hækkað um ámóta upphæð frá gengisfalli krónunnar. „Þetta tap slagar vel upp í þessar auknu byrðar lántakenda sem mikið hefur verið fjallað um. Þetta er því mikið áfall en enginn talar um það."

Fyrirtækin sem hlutabréfaeignin náði til eru Glitnir, Kaupþing, Landsbankinn, Straumur, Atorka, Avion, Bakkavör, Exista og TM. Verðbréfaskráning Íslands annaðist útreikningana. Frá því að útreikningarinar voru gerðir hafa hluta- og stofnbréf í fleiri fyrirtækjum orðið verðlaus og fjárhæðir því hækkað.bjorn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×